Fótbolti

Hefur þú séð slysalegra sjálfsmark en þetta? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Scott, til vinstri, fyrir bikarúrslitaleik á Wembley.
Alex Scott, til vinstri, fyrir bikarúrslitaleik á Wembley. Vísir/Getty
Alex Scott hefur örugglega séð ýmislegt á löngum og glæsilegum fótboltaferli sínum en hún hefur örugglega ekki séð oft sjálfsmark skorað af 35 metra færi.

Alex Scott lenti þó sjálf í því um helgina að skora þannig mark þegar hún var að spila með Arsenal á móti Chelsea í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar.

Einföld sending Alex Scott aftur til markvarðar liðsins, hinnar hollensku Sari van Veenendaa, fór alla leið í markið. Spyrnan var ekki föst og lengst utan af kanti en óheppni og klaufaskapur markvarðarins þýddi að boltinn endaði í markinu.  

Hollenski markvörðurinn er landsliðskona og var með Hollandi á HM í Kanada í fyrra. Hún gerði mistökin en það er þó Alex Scott sem fær þau skráð á sig því sjálfsmarkið telst hennar mark.

Alex Scott gat þó brosað af öllu saman í leikslok því henni og liðfélögum hennar tókst að snúa við leiknum og tryggja sér sigurinn.

Alex Scott er 31 árs gömul og hefur spilað 123 landleiki fyrir England. Hún hefur spilað með Arsenal stærsta hluta síns ferils en var einnig atvinnumaður í Bandaríkjunum í tvö tímabil.

Hér fyrir neðan má bæði sjá þetta klaufalega sjálfsmark hennar en einnig það sem hún sjálf setti inn á Twitter eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×