Erlent

Átta þúsund lögreglumönnum vikið úr starfi í Tyrklandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Nú þegar eru um 6.000 meðlimir úr dómskerfinu og hernum, þar á meðal hershöfðingjar, í haldi.
Nú þegar eru um 6.000 meðlimir úr dómskerfinu og hernum, þar á meðal hershöfðingjar, í haldi. Vísir/EPA
Ráðamenn í Tyrklandi segja að átta þúsund lögreglumönnum þar í landi hafi verið vikið úr starfi vegna gruns um tengsl þeirra við valdaránstilraunina um liðna helgi. Frá þessu er greint á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að nú þegar séu um 6.000 meðlimir úr dómskerfinu og hernum, þar á meðal hershöfðingjar, í haldi.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands hefur lofað því að hreinsa embættismannakerfið af þeim vírus sem olli valdaránstilrauninni. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagði áherslu á mikilvægi lýðræðislegrar stjórnar þegar hann hitti evrópska utanríkisráðherra í Brussel í dag. Þar sagði hann Bandaríkin styðja kjörna stjórn í Tyrklandi.

Tyrknesk yfirvöld halda því fram að klerkurinn Fethullah Gulen sé sá sem skipulagði valdaránstilraunina. Gulen býr í Bandaríkjunum og hefur staðfastlega neitað aðild að tilrauninni. Erdogan sagði við ávarp á sunnudag að yfirvöld í Tyrklandi væri að íhuga að koma aftur á dauðarefsingu í landinu. Sú refsing var afnumin í Tyrklandi árið 2004 þegar Tyrkir reyndu að komast í Evrópusambandið. Enginn hefur verið tekinn af líf í landinu af yfirvöldum frá árinu 1984.

Tyrkir sóttu fyrst um inngöngu í Evrópusambandið á níunda áratug síðustu aldar en stækkunarstjóri ESB, Johannes Hahn, sagði eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi að svo virðist sem yfirvöld þar í landi hafi búið yfir lista af fólki sem ætti að handtaka í tengslum við valdaránið áður en það var reynt.

BBC segir yfirvöld í Tyrklandi haf svarað því þannig að þau hafi í þó nokkurn tíma fylgst með leynilegum hópi í embættismannakerfinu sem grunaður var um að vilja ná völdum af stjórn Erdogans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×