Erlent

Fethullah Gulen segir forseta Tyrklands hafa sviðsett valdaránstilraunina

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Sigri tyrkneskra stjórnvalda í mislukkaðri valdaránstilraun hefur verið fagnað. Gulen er kennt um en segist saklaus.
Sigri tyrkneskra stjórnvalda í mislukkaðri valdaránstilraun hefur verið fagnað. Gulen er kennt um en segist saklaus. Vísir/Getty
Klerkurinn Fethullah Gulen sem tyrknesk yfirvöld segja að hafi verið á bak við valdaránstilraunina á föstudag segist óhræddur við að snúa aftur til heimalands síns. Hann segist ekki óttast það ef bandarísk stjórnvöld handtaki sig og framselji hann til Tyrklands að kröfu Tayyip Erdogan forseta.

Í viðtali við Reuters sagði Gulen að hann tryði því að forsetinn sjálfur hefði sett valdaránstilraunina á svið og að það sé ásetningur hans að skella skuldinni á sig. Hann segist ekki óttast það að deyja og segist í raun þrá framhaldslífið.

„Ég ætla ekki að gera neitt sem gæti skaðað reisn mína,“ sagði Gulen.

„Hér áður fyrr krafðist Erdogan þess að ég myndi biðjast afsökunar en trúaður maður biður ekki kúgara sinn afsökunar. Ef það kemur til þess að ég verði framseldur mun ég að sjálfsögðu virða það. En ég hef ekki áhyggjur af því að bandarísk stjórnvöld taki mark á ásökunum Erdogans.“

Gulen er 75 ára gamall en hann fluttist til Bandaríkjanna þegar hann flúði Tyrkland árið 1999. Hann á marga fylgjendur í Tyrklandi og hefur áður verið sakaður um valdraránstilraun. Það var í janúar 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×