Fótbolti

Shevchenko stýrir Úkraínu gegn strákunum okkar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andriy Shevchenko byrjar gegn spútnikliði EM 2016.
Andriy Shevchenko byrjar gegn spútnikliði EM 2016. vísir/getty
Andriy Shevchenko, fyrrverandi framherji AC Milan og Chelsea, var í dag ráðinn þjálfari úkraínska landsliðsins í fótbolta en hann spilaði 111 leiki fyrir það á glæstum ferli og skoraði 48 mörk.

Shevchenko byrjaði í þjálfun fyrr á þessu ári þegar hann gerðist aðstoðarþjálfari úkraínska landsliðsins. Það komst á Evrópumótið í Frakklandi en var eina liðið sem átti ekki möguleika á að komast upp úr riðli í lokaumferð riðlakeppninnar.

Þegar Mykhaylo Fomenko sagði upp störfum eftir dapra Evrópukeppni hjá landsliðinu var leitað til Shevchenko sem hefur aldrei starfað sem aðalþjálfari áður en hann er 39 ára gamall.

Fyrsti mótsleikur Shevchenko með úkraínska landsliðið verður gegn Íslandi í undankeppni HM 2018 5. september á Ólympíuvellinum í Kænugarði. Þar verða engir áhorfendur vegna áhorfendabanns sem úkraínska landsliðið var sett í.

Shevchenko var einn besti fótboltamaður sinnar kynslóðar en hann var kjörinn besti knattspyrnumaður Evrópu árið 2004. Hann vann úkraínsku deildina fimm sinnum með frábæru liði Dynamo Kiev og varð einnig Ítalíumeistari með AC Milan árið 2004.

Hann hafnaði því að verða landsliðsþjálfari Úkraínu árið 2012 þegar hann lagði skóna á hilluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×