Innlent

Pétur á Sögu krefst fjögurra milljóna vegna meiðyrða

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur segir æruvernd mannréttindahagsmuni og auðvitað hljóti hann að kæra.
Pétur segir æruvernd mannréttindahagsmuni og auðvitað hljóti hann að kæra.
Pétur Gunnlaugsson, lögmaður og útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, hefur stefnt einum einstaklingi vegna meintra meiðyrða sem sá einstaklingur birti á Facebooksíðu sinni. „Það er ekki búið að banna mér að leita atbeina dómsstóla? Auðvitað fer ég í mál.“

Pétur segist vera að skoða þetta nánar; þeir séu fleiri sem mega búast við því að verða lögsóttir. Pétur segist ekki vita hversu stór sá hópur verður.

Pétur segir að um sé að ræða áburð um refsiverða háttsemi og lygar og aðdróttanir. Svo sem þær að hann sé ekki lögfræðingur, og fleira í þeim dúr.

Þekkir meiðyrðalöggjöfina vel

Á vefsíðunni Sandkassinn, hefur verið greint frá því að Pétur hafi stefnt lesendum síðunnar, hann krefjist hárra skaðabóta. En, þeir eru sem stendur aðeins einn.

Pétur er síður en svo ókunnugur meiðyrðamálum.

„Ég þurfti að fara í meiðyrðamál við Viðskiptablaðið, sem ég vann og síðan var mál nú á þessu ári en þá gekk dómur gagnvart þeim sem hirtu peninga af Flokki heimilanna. Ég gagnrýndi það. Það var lögmannastofan Lex, lögmannsstofu fjármálaráðherrans, sem var með það mál.“ Pétur vann það mál einnig.

Þannig að Pétur þekkir meiðyrðalöggjöfina ágætlega.

Ætlar ekki að endurtaka svívirðingarnar

„Það verða fleiri ef menn halda áfram á þessari braut. Ég leita að sjálfsögðu atbeina dómsstóla til að verja hagsmuni mína og æruvernd eru mannréttindahagsmunir. Það verður að reyna að stoppa svona. En ég er hófsamur að þessu leyti.“

En, hver eru þessi ummæli?

„Ég ætla ekkert að fara að endurtaka þær svívirðingar. Nóg að það komi fram fyrir rétti en ég geri kröfu um að ákveðin ummæli verði dæmd dauð og ómerk.“

Pétur segist jafnframt setja fram fjárkröfur í málinu. „Bótakröfur og aðrar kröfur. Miskabótakröfu uppá fjórar milljónir,“ segir Pétur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×