Enski boltinn

Svona lýsir Mourinho Zlatan í þremur orðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan fyndinn?
Zlatan fyndinn? vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic er fyndinn náungi þó hann virki hrokafullur að sögn José Mourinho, nýjum knattspyrnustjóra Manchester United, en fyndinn er eitt af þremur orðum sem Portúgalinn notar til að lýsa sænsku stórstjörnunni.

Zlatan er mættur til Manchester United 34 ára gamall eftir fjögurra ára dvöl hjá Paris Saint-Germain í Frakklandi þar sem hann varð meistari öll tímabilin. Það er reyndar ekkert nýtt því Svíinn er með svarta beltið í landstitlum sem hann hefur unnið þrettán sinnum á ferlinum.

Þessi öflugi framherji átti sitt besta tímabil með PSG á síðustu leiktíð en hann skoraði þá 38 mörk í 31 deildarleik og 50 mörk í 51 leik í öllum keppnum. Hann gerði eins árs samning við Manchester United þar sem hann hittir fyrir Mourinho sem áður þjálfaði hann hjá Inter á Ítalíu.

„Zlatan? Í þremur orðum: Hann er sigurvegari, hann er markaskorari, hann er fyndinn,“ segir José Mourinho um Zlatan í kynningarmyndbandi fyrir Adidas.

„Hann er fyndinn gaur. Maður verður að skilja Zlatan til að nota þetta orð til að lýsa honum. Hann er fyndinn gaur.“

„Þeir sem þekkja ekki Zlatan finnst sumt sem hann segir eflaust svolítið hrokafullt en hann er bara fyndinn gaur. Fyndinn, sigurvegari og markaskorari. Ég var meira en ánægður að eltast við hann og augljóslega er hann ánægður með að vinna aftur með mér,“ segir José Mourinho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×