Viðskipti innlent

Laun hækkuðu um 80% á áratug

Sæunn Gísladóttir skrifar
Verkafólk hækkaði umtalsvert umfram aðrar starfsstéttir í öllum atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu 2006-2015.
Verkafólk hækkaði umtalsvert umfram aðrar starfsstéttir í öllum atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu 2006-2015. Vísir/Vilhelm
Frá 2006 til 2015 hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 79,6 prósent. Launaþróunin var hnífjöfn á almennum markaði og hjá ríkinu og hjá sveitarfélögum. Laun kvenna hækkuðu meira en karla á tímabilinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Í kjölfar kjarasamninga. Skýrslan er samstarfsverkefni þeirra heildarsamtaka á vinnumarkaði sem aðild eiga að Salek. Niðurstöður skýrslunnar byggja á sérvinnslu úr gagnasafni Hagstofunnar samkvæmt beiðni Salek.

Samkvæmt opinberum upplýsingum Hagstofunnar hækkuðu laun á almennum markaði um 6,7 prósent að jafnaði að ári. Á tímabilinu 2006 til 2015 hækkuðu laun um 78,3 prósent hjá ríkinu og um 78,6 prósent hjá sveitarfélögunum.

Milli nóvember 2014 og nóvember 2015 hækkuðu laun félagsmanna aðildarfélaga ASÍ á almennum markaði að meðaltali um 8,8 prósent og 7,1 prósent hjá félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu. Félagsmanna aðildarfélaga BHM sem starfa hjá ríkinu hækkuðu að meðaltali um 10,8 prósent á árinu og félagsmenn aðildarfélaga BSRB hjá ríkinu hækkuðu um 8,2 prósent.

Laun framhaldsskólakennara hækkuðu langmest allra starfsstétta bæði árin 2014 og 2015, eða um 15,9 prósent fyrra árið og 18,1 prósent hið síðara. Laun þeirra hækkuðu um 100 prósent frá nóvember 2006 samanborið við 78 prósent hækkun á almennum vinnumarkaði. Rekja má skýringar á hækkun launa framhaldsskólakennara mfram aðra hópa til breytts vinnumats í kjarasamningi þeirra og tímabundinnar tengingar við launaþróun BHM-félaga.

Fram kemur í skýrslunni að launamunur kynjanna hefur minnkað töluvert á tímabilinu. Í heildarsamtökum og samningssviðum hafa laun kvenna hækkað meira en karla á tímabilinu 2006 til 2015.

Regluleg laun (án yfirvinnu) voru hæst hjá félagsmönnum BHM, að meðaltali 552 þúsund krónur á mánuði, þar á eftir framhaldsskólakennarar, 542 þúsund krónur, en meðaltal reglulegra laun á almennum vinnumarkaði var 428 þúsund krónur.

Ef skoðuð er launaþróun eftir starfsstéttum og atvinnugreinum kemur fram að verkafólk hækkaði umtalsvert umfram aðrar starfsstéttir í öllum atvinnugreinum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu 2006-2015. Í iðnaði hækkaði verkefólk um 93 prósent samanborið við 60 prósent hækkun stjórnenda sem hækkuðu minnst. Stjórnendur hækkuðu einnig minna en aðrar starfsstéttir hjá ríki og sveitarfélögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×