Skoðun

SÁÁ og lýðheilsan

Arnþór Jónsson skrifar
Stærstu tíðindi síðasta árs í heilbrigðismálum þjóðarinnar voru fréttirnar af átaki til útrýmingar á lifrarbólgu C úr íslensku samfélagi. Lifrarbólga er sá smitsjúkdómur sem veldur flestum dauðsföllum í heiminum og deyja nú fleiri úr lifrarbólgu en alnæmi, berklum og malaríu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem byggð er á tölfræðiupplýsingum frá 183 löndum og RÚV greindi frá 7. júlí síðastliðinn. Dauðsföll vegna sýkinga, lifrarsjúkdóma og lifrarkrabbameins sem rekja má til lifrarbólgu hafa í þessum 183 löndum, aukist um 63% frá árinu 1990.

Á sama tíma og lifrarbólgufaraldur geisar í flestum löndum heims eru Íslendingar í allt annarri og betri stöðu. Ástæðuna má rekja til þess að lyfjafyrirtækið Gilead hefur gefið öllum Íslendingum, sem smitaðir eru af lifrarbólgu C-veirunni, lyf að verðmæti um 10 milljarða króna. Á móti leggur SÁÁ fram gagnagrunn með um 900 lifrarbólgu C-smitaða einstaklinga, sem er allur þorri þeirra tilfella af lifrarbólgu C sem greinst hefur hér á landi.

Á Sjúkrahúsinu Vogi hefur frá árinu 1989 verið skimað fyrir lifrarbólgu C hjá öllum innrituðum sjúklingum sem hafa sprautað sig með vímuefnum í æð. Skimunarþjónustan hefur í meira en tvo áratugi verið rekin fyrir eigin reikning SÁÁ og kostuð með sjálfsaflafé samtakanna, þar á meðal greining blóðsýna á rannsóknarstofu Landspítalans. Það er einsdæmi í heiminum að næstum allir smitaðir einstaklingar í heilu samfélagi hafi fengið skimun og jafnnákvæma greiningu og raunin er hér. Lyfjafyrirtækið sér í þessari aðstöðu fram á ómetanlega auglýsingu fyrir virkni og gæði lyfsins ef tekst að uppræta smitið hjá heilli þjóð.

Ungmenni á Vogi

Í gegnum tíðina er það einkum tvennt sem SÁÁ hefur verið gagnrýnt fyrir. Endurinnlagnir veikustu sjúklinganna er annað og meðferðarþjónusta fyrir ungmenni er hitt. Sem betur fer hafa augu flestra opnast fyrir nauðsyn skaðaminnkunarþjónustu fyrir veikustu áfengis- og vímuefnasjúklingana á meðan meðferðarþjónusta fyrir ungmenni er enn litin hornauga af sumum.

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins kemur fram í ritstjórnargrein að á árunum 1996-2015 leituðu 2.853 einstaklingar sem voru 19 ára eða yngri sér meðferðar hjá SÁÁ í fyrsta sinn. Úr þessum hópi hafa 678 einstaklingar sprautað vímuefnum í æð og 237 hafa fengið lifrarbólgu C. Nú þegar hefur komið í ljós að a.m.k. 168 þessara einstaklinga þurfa áðurnefnda lyfjameðferð. Allar líkur eru á því að SÁÁ takist að kalla inn þessa ungu einstaklinga og létta af þeim þessu áfalli og þunga hlassi með lyfjagjöfinni.

Áhugahvöt unglinga til að breyta vímuefnaneyslunni er oft lítil til að byrja með og því er meginmarkmið meðferðar SÁÁ fyrir þennan unga sjúklingahóp að fleyta honum í gegnum slysa- og sýkingahættur þar til nægur samstarfsvilji skapast til markvissrar meðferðar. Ungmenni fá hvergi annars staðar álíka þjónustu hér á landi.

Gætum að því að ekkert heilbrigðisvandamál er jafnalgengt og hættulegt fyrir unglinga og notkun vímuefna. Gleðjumst yfir því að okkur hefur gengið þokkalega vel í glímunni við þennan flókna heilbrigðisvanda og að ástandið hér er betra en víðast annars staðar. Höldum samt vöku okkar því þótt vímuefnavandi ungmenna sérstaklega virðist hafa minnkað síðustu ár er ekkert fast í hendi þegar kemur að unga fólkinu okkar. Það er stutt á milli hláturs og gráts.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×