Skoðun

Lægri tollar – fleiri kostir neytenda

Ólafur Stephensen skrifar
Margir neytendur hafa undanfarna daga ákveðið að beina viðskiptum sínum til keppinauta Mjólkursamsölunnar, eftir að Samkeppniseftirlitið ákvað að sekta MS um tæplega hálfan milljarð vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sinni. Keppinautar MS á innanlandsmarkaði eru fáir og smáir.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er dregin upp mynd af markaði þar sem MS og Kaupfélag Skagfirðinga eru í sameiningu í nánast algjörri einokunarstöðu og ráða því sem þeim sýnist. Margar tegundir mjólkurvöru á Íslandi eru eingöngu framleiddar af MS og tengdum fyrirtækjum og kostir neytenda eru því takmarkaðir.

Allir kaupa hrámjólk af MS

Forstjóri MS benti líka á í viðtali á Bylgjunni 11. júlí að það væri ekki stórt áhyggjuefni þótt neytendur beindu viðskiptum sínum til minni keppinauta MS í vinnslu mjólkurvara. Þeir kaupa nefnilega allir hrámjólk af MS, sem er eini seljandi hennar á Íslandi. Keppinautarnir eiga ekki val um hvar þeir kaupa hráefnið og þótt neytendur beini viðskiptum sínum til þeirra fær MS alltaf nokkuð fyrir sinn snúð. Þetta er óheilbrigt kerfi, sem ástæða er til að vinda ofan af.

Samkeppni á að ríkja í mjólkuriðnaði eins og öðrum atvinnugreinum á Íslandi og samkeppnislög eiga að gilda fullum fetum um greinina eins og aðrar. Samkeppniseftirlitið hefur áður lagt til að MS yrði skipt upp í smærri fyrirtæki. Félag atvinnurekenda hefur tekið undir það og sagt að nú séum við að nálgast þann tímapunkt að ástæða sé fyrir samkeppnisyfirvöld að beita þeim lagaheimildum sem þau hafa til að brjóta upp einokunarrisann.

Skjótvirkasta leiðin

Slíkt ferli tekur hins vegar tíma. Skjótvirkasta leiðin til að fjölga kostum neytenda er að lækka tolla á innfluttum mjólkurvörum þannig að þær verði samkeppnishæfar við innlenda framleiðslu. Þetta hafa margir lagt til; síðast Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í skýrslu sem unnin var fyrir landbúnaðarráðherra um mjólkuriðnaðinn. Til þessa hafa stjórnmálamennirnir ekki hlustað. Í búvörusamningum, sem Alþingi á eftir að taka afstöðu til, er þannig ákvæði um að það eigi að hækka tollana á innfluttum mjólkurvörum og styrkja þannig enn einokunarstöðu MS. Alþingi á að sjálfsögðu að hafna slíkum samningum og ákveða þess í stað að lækka tollana og fjölga þannig valkostum neytenda.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×