Erlent

Færeyingar koma upp „kindamyndavélum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kindur á vappi í Færeyjum.
Kindur á vappi í Færeyjum. vísir/getty
Nágrannar okkar í Færeyjum hafa fengið nóg af því að bíða eftir því að Google Street View komi til landsins og kortleggi vegi eyjanna. Færeyingar hafa því gripið til þess ráðs að koma sjálfir upp sínum eigin myndavélum á fimm kindum á eyjunum. Því má segja að um kindamyndavélar sé að ræða.

Verkefnið var þróað á ferðamálastofu Færeyja og felur það í sér að 360-gráðu myndavélum er komið fyrir á kindunum fimm sem fara svo að vild um eyjarnar. Þær taka upp myndband á meðan af því sem fyrir augu ber sem send eru beint á ferðamálastofuna þar sem Durita Dahl Andreassen sér um að hlaða þeim inn á Google Street View.

„Hér í Færeyjum þurfum við að gera hlutina á okkar eigin vegu. Við vitum að Google er mjög stórt og við erum mjög lítil svo okkur fannst rétt að gera þetta svona,“ segir Andreassen í samtali við Guardian.

Í verkefninu felst bæði mikil landkynning fyrir Færeyjar auk þess sem því er ætlað að þrýsta á Google um að koma til eyjanna til að kortleggja þær með Google Street View.

Um 80 þúsund kindur eru í Færeyjum en þar búa tæplega 50 þúsund manns. Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að í Færeyjum séu tvö sauðfjárkyn. Á vefnum var spurt hvort kindur í Færeyjum væru með mislangar lappir til að geta staðið betur í hlíðunum þar og var svarið eftirfarandi:

„Annað er með lengri vinstri lappir, hitt með lengri hægri lappir. Það fyrra snýr alltaf hægri hliðinni upp í hlíðina, hitt vinstri hliðinni. Það fyrra fer í sífellu réttsælis kringum eyjuna, hitt rangsælis. Þetta er kallað aðlögun í þróunarfræðinni.

Bændur þurfa að gæta þess vel að þessi kyn blandist ekki því að þá gætu komið út kindur sem væru jafnlangar í báðar lappir, og náttúruvalið verkar gegn því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×