David Cameron skýrði frá því í gær að Theresa May muni taka við af honum sem forsætisráðherra strax að loknum spurningatíma í þinginu.
Þetta gerðist hratt, eftir að Andrea Leadsom sagðist í gær hætt við framboð sitt til formennsku í breska Íhaldsflokknum. Þar með varð Theresa May sjálfkjörin í embættið og tekur þá við leiðtogaembættinu á landsþingi flokksins haust.
Það kemur því í hennar hlut að fylgja eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní, þar sem Bretar samþykktu að ganga úr Evrópusambandinu.
David Cameron forsætisráðherra boðaði afsögn sína þegar úrslitin voru ljós. Hann hafði barist fyrir því að Bretar yrðu áfram í Evrópusambandinu, eftir að hafa samið um breytt skilyrði fyrir Bretland.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Erlent