Erlent

1.700 foringjar í tyrkneska hernum leystir frá störfum

Birgir Olgeirsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA
Forsætisráðherra Tyrklands hefur gefið út að pólitískum hreinsunum í landinu sé hvergi nærri lokið eftir valdaránstilraunina fyrir tæpum tveimur vikum.

Rúmlega 15.000 hafa verið handteknir vegna  gruns um tengsl við skipulagningu á valdaránstilrauninni og eru 8.000 enn í haldi, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian af ástandinu.

Tugþúsundir til viðbótar hafa verið fjarlægðir úr embættismannakerfi landsins en Guardian hefur eftir tyrknesku fréttastofunni Andolu að 1.700 herforingjar hafi verið leystir frá störfum eftir valdaránstilraunina.

Tugum fjölmiðla fjölmiðla hefur verið lokað, þar á meðal 45 dagblöðum og 16 sjónvarpsstöðvum. Tyrknesk yfirvöld hafa sakað klerkinn Fethullah Gulen um að standa að baki valdaránstilrauninni en forsætisráðherra landsins, Binali Yildirim, segir rannsókn málsins enn í fullum gangi.

„Það er enn verið að leita að fólki. Það gæti leitt til frekari handtaka og varðhalds. Ferlinu er ekki lokið.“

Orkumálaráðherra landsins Berat Albayrak, sem er tengdasonur forsetans Recep Tayyip Erdogan, sagði tyrknesk yfirvöld hafa verið búin að leggja á ráðin um mikla hreinsun í hernum og öðrum stofnunum landsins. Átti að gera það til að hreinsa kerfið af öllum tengslum við Gulen. Ummæli Albayrak benda til að þessi hreyfing innan hersins hafi lagt í valdaránstilraunina því hún hafði heyrt af því að til stæði að leggjast í slíkar hreinsanir.

Talið er að tilkynnt verði um róttæka breytingu á hernum þegar æðsta herráð landsins kemur saman á morgun. Rúmlega 10 þúsund hermenn og 358 hershöfðingjar hafa verið í haldi sem hefur skilið eftir stórt skarð í valdaskipan hersins.


Tengdar fréttir

Pyntingar og ill meðferð staðfest í Tyrklandi

Una Sighvatsdóttir ræddi við Andrew Garnder, rannsakanda hjá Amnesty International í Istanbúl, sem segir nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið sendi hlutlausa eftirlitsaðila til Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×