Fótbolti

Brjálaði Bielsa líklegur til að taka við argentínska landsliðinu á ný

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcelo Bielsa er einn áhrifamesti þjálfari seinni tíma.
Marcelo Bielsa er einn áhrifamesti þjálfari seinni tíma. vísir/getty
Marcelo Bielsa mun ræða við argentínska knattspyrnusambandið um möguleikann á að taka að sér þjálfun argentínska landsliðsins.

Bielsa komst í fréttirnar fyrr í þessum mánuði þegar hann hætti sem knattspyrnustjóri Lazio eftir aðeins tvo daga í starfi.

Argentínska landsliðið er þjálfaralaust eftir að Gerardo „Tata“ Martino hætti störfum eftir Copa América í Bandaríkjunum.

Armando Perez, starfandi forseti argentínska knattspyrnusambandsins, segist hafa verið í sambandi við Bielsa sem þjálfaði Argentínu á árunum 1998-2004.

„Ég hef rætt við Bielsa í síma og við ætlum sjá hvort við getum ekki hist. Það er undir honum komið,“ sagði Perez.

Hinn 61 árs gamli Bielsa er einn áhrifamesti þjálfari seinni tíma en hann hefur haft áhrif á marga af fremstu þjálfurum heims í dag. Má þar nefna menn á borð við Pep Guardiola, Mauricio Pochettino og Diego Simeone.

Bielsa gerði Argentínu að Ólympíumeisturum 2004 en hætti sem landsliðsþjálfari seinna sama ár. Síðan þá hefur hann þjálfað landslið Síle, Athletic Bilbao og Marseille, auk daganna tveggja sem hann var við stjórnvölinn hjá Lazio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×