Fótbolti

Ólafur ekki að reyna að breyta of miklu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Kristjánsson á bekknum hjá Randers.
Ólafur Kristjánsson á bekknum hjá Randers. Vísir/Getty
Johnny Thomsen, reynsluboltinn í danska liðinu Randers FC, er ánægður með nýja þjálfarann sinn en Íslendingurinn Ólafur Kristjánsson tók við danska úrvalsdeildarliðinu í sumar.

Ólafur Kristjánsson tók við liðinu af Colin Todd en bakvörðurinn er sáttur við að íslenski þjálfarinn hafi ekki gert of mikið af breytingum.

„Ég hef ekki séð mikið af breytingum en leikur okkar er beinskeyttari. Það er eitthvað sem Ólafur er að reyna að koma inn hjá liðinu," sagði Johnny Thomsen við bold.dk.

„Ólafur kom ekki hringað til að umbreyta öllu. Hann er að koma í lið þar sem hlutirnir hafa gengið vel. Við erum bara að reyna að byggja ofan á það," sagði Thomsen.

Randers tapaði 1-0 á móti AaB um helgina og hefur aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Midtjylland í fyrsta leik.

„Við erum ekki að gefa mikið af færum á okkur. Við erum skipulagðir og það er erfitt að spila á móti okkur. Við vitum það líka að við þurfum að skapa okkur fleiri færi en við höfum gert í fyrstu tveimur leikjunum. Ólafur er líka að vinna fyrir því," sagði Thomsen.

„Ég er viss um að við verðum betri og betri í næstu leikjum. Næst er spennandi bardagi í Árósum. Þeir hafa reyndar byrjað betur en við en ég sá þarna góðan möguleika fyrir okkur til að vinna góðan sigur," sagði Thomsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×