„Við verðum að hlusta eftir því hvað Bretar vilja og finna út rétta svarið,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á blaðamannafundi í Berlín í gær að loknum fundi hennar með Theresu May, nýjum forsætisráðherra Bretlands.
Þær ræddu þar um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en sögðu báðar ljóst að formlegar samningaviðræður myndu ekki hefjast fyrir áramót.
Þetta var í fyrsta sinn sem þær hittust og May sagði vel hafa farið á með þeim: „Við erum tvær konur sem viljum ganga í verkin og ná þeirri bestu niðurstöðu sem möguleg er fyrir íbúa Bretlands og Þýskalands.“
Í gær tilkynntu Bretar að þeir ætluðu ekki að fara með formennsku í ráði Evrópusambandsins seinni hluta ársins 2017, eins og gert hefur verið ráð fyrir í áætlunum sambandsins.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Erlent