Skoðun

Á köldum klaka

Bjarnveig Eiríksdóttir skrifar
Annað slagið fréttist af bágri stöðu erlendra verkamanna hér á landi. Oft eru þetta sk. útsendir starfsmenn þjónustufyrirtækja frá öðrum EES-ríkjum, t.d. starfsmannaleigu eða byggingaverktaka, sem senda þá hingað til lands í tímabundin verkefni. Lagalega er staða þessara launþega önnur en annarra launþega á hérlendum vinnumarkaði. Svo virðist sem hægt sé að teygja þessa tímabundnu dvöl þeirra út í hið óendanlega.

Ólík staða útsendra starfsmanna og EES-launþega

Meginregla EES um frjálsa för launþega gildir um EES-launþega sem ráða sig til vinnu hjá hérlendum fyrirtækjum. Þeir njóta sömu kjara og félagslegra réttinda og aðrir launþegar hér á landi og tilheyra hérlendu almannatryggingakerfi. Útsendir starfsmenn koma hingað í skjóli erlends þjónustufyrirtækis á grundvelli EES-reglunnar um þjónustufrelsi. Útsendir starfsmenn heyra undir reglur heimaríkis síns, m.a. atvinnuleysistryggingakerfi og tilheyra almannatryggingakerfi þess fyrstu tvö árin. Samkvæmt tilskipun um útsenda starfsmenn skulu tiltekin réttindi þeirra vera í samræmi við reglur gistiríkis, þ.e. ríkisins sem þeir eru sendir til, s.s. lágmarkslaunataxtar, orlofsréttindi, aðbúnaður og öryggi á vinnustað. Gistiríki má ekki gera kröfu um að útsendum starfsmönnum verði veitt meiri réttindi en heimilað er í tilskipuninni. Samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins í máli E-12/2010 eiga starfsmenn sendir hingað takmarkaðri rétt til veikindalauna og ekki rétt á lögbundinni slysatryggingu eins og launþegar sem tilheyra hérlendum vinnumarkaði.

Bætt staða?

Verði umdeildar tillögur framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á tilskipuninni að veruleika gæti staðan batnað. Tekist er á um þær í Evrópuþinginu fram á haust. Tillögurnar munu breyta mestu hjá ríkjum sem ólíkt Íslandi hafa ekki nýtt sér svigrúm sem tilskipunin gefur til að veita starfsmönnum sendum frá öðrum ríkjum kjör sem líkust þeim sem gilda um aðra launþega. Eftirtektarverð er tillaga um að útsendur starfsmaður sem fyrirséð er að dveljist í gistiríki, þ.e. hérlendis, lengur en 24 mánuði skuli falla undir hérlenda vinnulöggjöf. Einnig skiptir máli að útsendir starfsmenn munu eiga rétt á sömu launum og hérlendir launþegar, ekki aðeins lágmarkstaxta samkvæmt kjarasamningum eins og nú er. Bót væri að þessum breytingum. Félagsleg undirboð sem koma niður á réttindum launafólks eiga ekkert skylt við heilbrigða samkeppni.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×