Fótbolti

Birkir kom inn á og lagði upp mark í stórsigri Basel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir lagði fjórða mark Basel upp.
Birkir lagði fjórða mark Basel upp. vísir/epa
Birkir Bjarnason lék síðustu 26 mínúturnar þegar Basel vann 1-5 útisigur á Vaduz í svissnesku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Basel hefur þar með unnið báða leiki sína í deildinni til þessa en liðið lagði Sion að velli, 3-0, í 1. umferðinni.

Austurríski landsliðsmaðurinn Marc Janko kom svissnesku meisturunum yfir strax á 4. mínútu og stundarfjórðungi síðar tvöfaldaði Matías Delgado forystuna með marki úr vítaspyrnu.

Simone Grippo minnkaði muninn í 1-2 á 31. mínútu en Norðmaðurinn Mohamed Elyounoussi sá til þess að Basel leiddi með tveimur mörkum í hálfleik þegar hann skoraði þriðja mark liðsins á 42. mínútu.

Birkir kom inn á sem varamaður fyrir Delgado á 64. mínútu. Íslenski landsliðsmaðurinn lét að sér kveða og lagði upp mark fyrir Renato Steffen

á lokamínútunni.

Það var svo Seydou Doumbia sem rak síðasta naglann í kistu Vaduz þegar hann skoraði fimmta mark Basel á 92. mínútu.

Birkir er á sínu öðru tímabili hjá Basel en hann varð svissneskur meistari með liðinu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×