Enski boltinn

Jón Daði skoraði í fyrsta leik fyrir Wolves | Sigur í fyrsta leik Harðar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Daði þegar hann gekk í raðir Wolves.
Jón Daði þegar hann gekk í raðir Wolves. vísir/wolves
Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í sínum fyrsta leik fyrir Wolves í fyrstu umferð ensku B-deildarinnar í knattspyrnu.

Wolves gerði þá 2-2 jafntefli við Rotherham á útivelli, en Rotherham komst í 2-0 með mörkum Danny Ward og Will Vaulks.

George Saville minnkaði muninn á 39. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik. Dominic Iorfa var svo rekinn af velli í liði Wolves og útlitið var dökkt.

Þá steig hins vegar okkar maður upp, Jón Daði, en hann jafnaði metin á 65. mínútu með glæsilegu marki. Lokatölur 2-2.

Jón Daði spilaði fyrstu 88 mínútur leiksins, en hann gekk í raðir Wolves í vikunni.

Annar íslenskur landsliðsmaður, Hörður Björgvin Magnússon var í eldlínunni í ensku B-deildinni þegar Bristol vann 2-1 sigur á Wolves.

Alex Gilbey kom Wigan yfir á 32. mínútu og þannig stóðu leikar allt þar til á 81. mínútu þegar Tammy Abraham jafnaði metin.

Tammy var ekki hættur því hann tryggði Herði og félögum sigur í uppbótartíma og því sætur sigur Harðar í hans fyrsta leik á Englandi.

Fyrrum Framarinn spilaði allan leikinn fyrir Bristol, en Aron Einar Gunnarsson var ónotaður varamaður hjá Cardiff í 0-0 jafntefli gegn Birmingham.

Eggert Gunnþór Jónsson spilaði allan leikinn fyrir Fleetwood sem gerði 1-1 jafntefli við Northampton Town í ensku C-deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×