Íslenski boltinn

Heimir: Helgi var næstur á listanum eftir Eiði Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson á fundinum í morgun.
Heimir Hallgrímsson á fundinum í morgun. Vísir/Jóhanna
Helgi Kolviðsson var í dag kynntur til sögunnar sem nýr aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Helgi var sjálfur landsliðsmaður á sínum tíma en spilaði lengi í Þýskalandi og Austurríki þar sem hann hefur síðan verið þjálfari um árabil.

Heimir hefur verið að leita að aðstoðarþjálfara eftir að hann tók einn við íslenska landsliðinu eftir EM í sumar, en þá hætti Lars Lagerbäck störfum. Hann var fyrst í viðræðum við Eið Smára Guðjohnsen um þessa stöðu.

„Eftir að Eiður Smári gaf þetta frá sér þá var Helgi næstur í röðinni og það var gaman hvað þetta gekk hratt fyrir sig. Það eru í raun þrjár vikur síðan að við gengum frá þessu,“ segir Heimir en Eiður Smári gaf sér tíma til að hugsa um tilboð Heimis á sínum tíma.

„Ég ræddi strax við hann þegar ég gerði minn samning og hann hafði þetta í kollinum. Svo vissum við ekki hvort að Lars myndi vera áfram eða ekki en þegar hann gaf það svo út var málið tekið upp á ný.“

„En eðlilega vill hann spila áfram og hann hefur sýnt að hann á nóg eftir. Þetta fer ekki með saman með því að spila og því verður þetta að bíða betri tíma,“ segir Heimir enn fremur.

Landsliðsþjálfarinn segist ánægður með það teymi sem hann hefur komið saman en Guðmundur Hreiðarsson verður áfram markvarðaþjálfari liðsins og þá hefur nýr styrktarþjálfari verið ráðinn.

„Við höfum lært mjög mikið, síðasta ár sérstaklega og sú reynsla er okkur að koma til góða núna. Það eru margir sem koma að þessu og við höfum allir átt mjög gott samstarf.“

Hann segir að umgjörðin í kringum landsliðið sé alltaf að batna.

„Við erum alltaf að leita að hlutum sem við getum bætt. Það er nóg af þeim þáttum hjá okkur og við lítum gagnrýnt á það sem við erum að gera. Þetta er alltaf að batna og fyrir það ber að hrósa KSÍ.“

Heimir segir að Helgi hafi aðeins öðruvísi sýn á þjálfun en hann sjálfur.

„Hann hefur sinn bakgrunn í Þýskalandi og hefur aðeins aðra sýn á taktík og annað slíkt. Hann hefur ekki verið að trana sér of mikið fram til þessa enda erum við enn að kynnast hvorum öðrum. En hann er líklega með aðeins aðra sýn á fótboltann en margir Íslendingar og það er bara frábært.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×