Erlent

Þriggja ára drengur lést eftir að hafa verið bitinn af hundi í Bretlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Hundurinn var fluttur í hundabyrgi, en enn á eftir að gefa upp af hvaða tegund hann er.
Hundurinn var fluttur í hundabyrgi, en enn á eftir að gefa upp af hvaða tegund hann er. Vísir/Getty
Þriggja ára enskur drengur lést eftir að hafa verið bitinn af hundi í bænum Halstead í Essex í Englandi síðdegis í gær.

Drengurinn var fluttur frá Parker Way og á sjúkrahús þar sem hann lést nokkru síðar af völdum sára sinna.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að 29 ára gömul kona, eigandi hundsins, hafi verið handtekin á vettvangi fyrir að hafa heimilað hundinum að ganga lausum og skaða mann.

Hundurinn var fluttur í hundabyrgi, en enn á eftir að gefa upp af hvaða tegund hann er.

Í frétt Sky segir að árás hundsins komi upp einungis nokkrum dögum eftir að 52 ára karlmaður, David Ellam, lést þar sem hann var að viðra Yorkshire Terrier hund sinn og annar hundur, sem er af tegund sem bönnuð er í Bretlandi, réðst á hann.

Árásum hunda á mannfólk hefur fjölgað mikið í Bretlandi á síðustu árum, eða um 76 prósent síðasta áratuginn. Þannig hafa rúmlega sjö þúsund þurft að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir árás hunda á tímabilinu.

Sérstök lög tóku gildi í Bretlandi fyrir aldarfjórðungi sem kveða á um að aflífa beri alla hunda af ákveðnum tegundum sem séu álitnar hættulegar mannfólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×