Erlent

Sakar lögreglu í Mexíkó um að hafa tekið 22 af lífi

Atli Ísleifsson skrifar
Áhlaupið á síðasta ári varð eitt það mannskæðasta í baráttu lögreglu við glæpaklíkur í Mexíkó.
Áhlaupið á síðasta ári varð eitt það mannskæðasta í baráttu lögreglu við glæpaklíkur í Mexíkó. Vísir/AFP
Mannréttindastofnun Mexíkó hefur sakað lögreglu landsins um að hafa tekið 22 menn af lífi með óréttlætanlegum hætti, í áhlaupi sínu á búgarð glæpaklíku á síðasta ári.

Einn lögreglumaður og 42 meintir liðsmenn eiturlyfjahrings féllu í áhlaupinu sem gert var á búgarð í Tanhuato í Michoacan-ríki um miðjan maímánuði í fyrra.

Lögregla sagði þá hafa skotið í sjálfsvörn en mikill fjöldi fallinna vakti grunsemdir Mannréttindastofnunarinnar sem nú hefur sakað lögreglu um yfirhylmingu. Lögregla hafnar ásökununum.

Lögregla notaðist meðal annars við þyrlu í áhlaupinu þar sem um fjögur þúsund skotum var skotið á búgarðinn sem gengur undir nafninu Rancho del Sol.

Stjórnvöld höfðu áður sagt að í umræddu áhlaupi hafi ekki verið nein óréttmæt dráp, en í skýrslu stofnunarinnar kemur meðal annars fram að fimm hafi farist í loftárásinni og 22 beinlínis verið teknir af lífi af lögreglu. Þá séu kringumstæður varðandi fall fimmtán manna einnig óljósar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×