Erlent

Hjálpargögn komast ekki til umsáturssvæðanna í Aleppo

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Myndin af Omran Daqneesh í sjúkrabifreið í Aleppo fór víða í gær. Hann bjargaðist úr loftárás sem kostaði að minnsta kosti átta manns lífið.
Myndin af Omran Daqneesh í sjúkrabifreið í Aleppo fór víða í gær. Hann bjargaðist úr loftárás sem kostaði að minnsta kosti átta manns lífið. Vísir/AFP
„Ekki ein einasta bílalest hefur komist til umsáturssvæðanna í heilan mánuð,” sagði Staffan de Mistura, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna gagnvart Sýrlandi, þegar hann sleit fundi sínum með hjálparstarfshópi, sem hefur það verkefni að útvega íbúum Sýrland aðstoð.

Hann sagði engan tilgang vera í því að skipuleggja hjálparstarf þegar engin leið er að komast á staðinn. Hjálparstarfsfólkinu sé ekki hleypt inn á átakasvæðin.

Hann krafðist þess að tveggja sólarhringa vopnahlé verði gert í Aleppo til þess að hægt verði að koma þangað hjálpargögnum. Báðir aðilar átakanna verði að sýna svolitla mannúð.

„Það sem við heyrum og sjáum er ekkert annað en átök, árásir, gagnárásir, flugskeyti, tunnusprengjur, sprengjuvörpur, vítisfallbyssur, napalm, klór, leyniskyttur, loftárásir, sjálfsvígsárásarmenn,” sagði de Mastura.

Ekkert muni breytast nema allir sem hafa einhver áhrif á átökin taki sig á. Ekki dugi að Rússar og Bandaríkjamenn sýni einhverja viðleitni.

Sýrlenskir hjálparstarfsmenn birtu í gær mynd af fimm ára gömlum dreng sem bjargað var út úr rústum heimilis síns í Aleppo eftir að loftárás hafði verið gerð þar. Myndin vakti sterk viðbrögð.

Drengurinn, þrjú systkini hans og báðir foreldrar lifðu af árásina, sem kostaði að minnsta kosti átta manns lífið, þar á meðal fimm börn.

Stjórnarher Bashar al Assads Sýrlandsforseta hefur gert harðar loftárásir á Aleppo undanfarna sólarhringa. Hann nýtur stuðnings rússneska hersins, sem rétt eins og stjórnarherinn segist beina árásum sínum gegn hryðjuverkamönnum.

Mannréttindasamtök fullyrða hins vegar að loftárásirnar hafi kostað hundruð almennar borgara lífið nú á fáum sólarhringum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×