Erlent

Þúsundum tyrkneskra fanga sleppt til að rýma fyrir valdaránsmönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Erdodan Tyrklandsforseti.
Erdodan Tyrklandsforseti. Vísir/AFP
Tyrknesk stjórnvöld hafa ákveðið að þúsundum fanga verði sleppt til að rýma til í fangelsum fyrir mönnum sem komu að misheppnaðri valdaránstilraun í landinu fyrr í sumar. Þá hefur um tvö þúsund lögreglumönnum og hermönnum verið vikið úr starfi.

Stjórnvöld lýstu yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu fyrr í sumar sem veitir þeim heimild til að grípa til aðgerðanna.

Dómsmálaráðherrann Bekir Bozdag greindi frá því á Twitter að um 38 þúsund föngum í landinu verði sleppt til að rýma til í yfirfullum fangelsum landsins. Þeir fangar sem eiga eftir að afplána minna en tvö ár af dómi sínum og hafa afplánað að minnsta kosti helming dómsins verður sleppt, þó ekki þeim sem hafa verið dæmdir fyrir morð, ofbeldisbrot gegn maka, kynferðisbrot og brot gegn ríkinu.

Þeir um tvö þúsund lögreglumenn og hermenn sem hafa verið látnir víkja úr starfi eru allir sagðir tengjast Fetullah Gulen, meintum höfuðpaur vandaránstilraunarinnar.

Tyrknesk yfirvöld hafa nú fangelsað rúmlega 30 þúsund stuðningsmenn Gulen og er búið að loka fjölda skóla, stofnana og félagasamtaka vegna meintra tengsla við Gulen.

Lögregla gerði í gær húsleit í 44 fyrirtækjum sem eru grunuð um að útvega Gulen fé.


Tengdar fréttir

Erdogan og Pútín endurnýja tengslin

Vladimír Pútín Rússlandsforseti tók í gær í Pétursborg á móti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. Pútín sagði fundinn merki um að þeir vilji endurnýja tengsl ríkjanna og bæta samskipti þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×