Erlent

Ellefu árásir í fimm héröðum Taílands

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Maður gengur fram hjá markaði í Phang-nga héraði þar sem sprengja sprakk.
Maður gengur fram hjá markaði í Phang-nga héraði þar sem sprengja sprakk. Nordicphotos/AFP
Ellefu sprengjuárásir voru gerðar í fimm héröðum Taílands í gær og fyrradag. Að minnsta kosti fjórir hafa látið lífið og þá eru 34 alvarlega slasaðir. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum ellefu og ekki er víst að þær tengist.

Árásirnar voru gerðar á vinsæla ferðamannabæi. Fjórar voru gerðar á bæinn Hua Hin og tvær á eyna Phuket. Einnig voru tvær árásir gerðar á Phang-nga, sem og Surat Thani, en ein á Trang.

Hua Hin er um 200 kílómetra suður af höfuðborginni Bangkok og Phuket enn sunnar. Staðirnir tveir, líkt og Phang-nga, eru þekktir fyrir fallegar strendur.

Lögregluyfirvöld hafa handtekið nokkra menn sem liggja undir grun en þau útiloka að alþjóðlegir hryðjuverkahópar standi að baki árásunum. Frá þessu greinir fréttastofa BBC. Talsmaður ríkislögreglu Taílands segir sumar sprengjanna hafa verið eldsprengjur.

Fréttamaður BBC í Taílandi, Jonathan Head, segir að uppreisnar­menn gætu staðið að baki árásunum. Ef svo væri myndi það þýða nýja aðferðafræði þeirra við árásir. Uppreisnarmenn hafa síðastliðin tólf ár kljáðst við yfirvöld í suðurhluta Taílands og drepið um sex þúsund manns. Þó hafi árásir þeirra aldrei beinst gegn ferðamönnum líkt og nú.

„Þessar árásir eru frábrugðnar þeim hryðjuverkaárásum sem áður hafa verið gerðar í Taílandi,“ sagði Piyapan Pingmuang, talsmaður lögreglu, á blaðamannafundi í gær. Hann sagði ástæðuna vera þá að árásirnar beindust ekki gegn opinberum stofnunum.

Býst hann við því að Hua Hin hafi orðið fyrir árásum þar sem borgin er uppáhaldsborg konungs Taílands, Bhumibol Adulyadej. Þar sé sumarbústaður hans, Klai Kangwon-höll. Þá var gærdagurinn einnig afmælis­dagur drottningarinnar, Sirikit Kitiyakara.

Einnig voru árásirnar gerðar aðeins nokkrum dögum fyrir árs­afmæli árásarinnar á Erawan-hofið. Þar fórust tuttugu manns.

Taílendingar kusu um nýja stjórnar­skrá fyrir viku. Ný stjórnarskrá var samþykkt með 61 prósenti greiddra atkvæða. Þó segir Paul Quaglia, sem starfað hefur í tuttugu ár fyrir leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) og sérhæft sig í málefnum Taílands, í samtali við fréttastofu CNN að árásirnar tengist nýju stjórnarskránni líklegast ekki. Það sé vegna þess að erfitt sé að samhæfa slíkar árásir á svo stuttum tíma.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×