Lífið

Mega tækla áhorfendur

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hugleikur, Jonathan og Steindór verða örugglega í stuði og kvöld og Steindór segir allt geta gerst.
Hugleikur, Jonathan og Steindór verða örugglega í stuði og kvöld og Steindór segir allt geta gerst. Vísir/Hanna

„Þetta verður eins og Bylgjulestin fyrir skrýtið fólk,“ segir Steindór Grétar Jónsson, umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Spinnipúkans.



Á sunnudagskvöld munu umsjónarmenn Spinnipúkans ásamt íslensk/ástralska uppistandshlaðvarpinu Ice­tralia taka upp þætti ásamt áhorfendahóp. Umsjónarmenn Icetralia eru íslenski uppistandarinn Hugleikur Dagsson og ástralski uppistandarinn Jonathan Duffy.



Áhorfendur eiga kost á því að taka að einhverju leyti þátt í hlaðvarpsþáttunum tveimur en þetta er í fyrsta sinn sem þættirnir eru teknir upp með áhorfendum. Steindór segist ekki viss um hvaða gest þeir Hugleikur og Jonathan muni kynna til leiks en sérlegur gestur Spinnipúkans er Hildur Lilliendahl Viggós­dóttir. „Hún mun segja okkur sögur úr eigin lífi til þess að veita okkur innblástur og kveikja á hugmyndum til þess að nota í spunanum,“ segir Steindór.

Hann vill þó ekki gangast við því að örli á samkeppni á milli hlaðvarpsþáttanna en viðurkennir að einhverjum bolabrögðum verði hugsanlega beitt. „Það er náttúrulega spurning hvort ég noti tækifærið og reyni að skemma þeirra þátt. Kannski hleyp ég upp á sviðið og tek mækinn. Svo mega áhorfendur náttúrulega reyna að hlaupa upp á svið og taka mækinn en þá megum við tækla þá. Það getur allt gerst,“ segir Steindór og hlær.



Ásamt honum munu þau Ólafur Ásgeirsson, Sandra Barilli og Atli Már Steinarsson sjá um Spinnipúkann. „Það verður nóg af gríni og það er frítt inn. Þetta verður einhver algjör vitleysa og mjög fyndið.



Herlegheitin fara fram á skemmtistaðnum Húrra og hefjast klukkan 20.00. 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×