Erlent

Telur fimmtán ár vera hæfilegan aðlögunartíma

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara.
Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara. Fréttablaðið/Ernir
Meirihluti fjárlaganefndar telur 24 ár vera allt of langan aðlögunartíma fyrir hækkun almenns eftirlaunaaldurs úr 67 árum upp í 70 ár.

„Ég held að 15 ár séu ágætis aðlögunartími,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Fjárlaganefnd telur nauðsynlegt að hefja sem fyrst viðbótargreiðslur til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem verður fyrir þungu höggi árið 2030 þegar sjóðir B-deildar lífeyrissjóðsins ganga til þurrðar.

Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir að mönnum bregði ekkert þótt 15 ár séu nefnd í þessu sambandi í staðinn fyrir 24 ár.

„Það er búið að vera að endurskoða almannatryggingakerfið alveg markvisst núna í tvö kjörtímabil, og það hefur verið gert af fulltrúum þingflokka bæði til hægri og vinstri ásamt fulltrúum atvinnulífsins og hagsmunasamtökum eins og okkar,“ segir Haukur.

„Í þessum hópi hefur verið samkomulag um að þetta taki 24 ár, en ég treysti því að menn finni farsæla lausn á þessu,“ segir Haukur. „Þarna eru líka önnur atriði sem skipta meira máli eins og að geta farið 65 ára á lífeyri eða vinna í hálfu starfi og hafa á móti hálfan lífeyri.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×