Erlent

Þjóðverjar kynna aðgerðir í baráttu gegn hryðjuverkum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregla á vettvangi árásarinnar í München.
Lögregla á vettvangi árásarinnar í München. Fréttablaðið/EPA
Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, kynnti í gær ný áform Þjóðverja í baráttunni gegn hryðjuverkum. Tilkynningin kemur í kjölfar nokkurra nýlegra árása á landið af völdum manna sem bendlaðir voru við hryðjuverkahópa.

Hluti áforma Þjóðverja er bann við því að klæðast búrku á almannafæri. Þá verður einnig reynt að koma í veg fyrir það að íslamskir öfgamenn fjármagni moskur landsins. Þá mun eftirlitsmyndavélum á opnum svæðum fjölga stórlega og glæpamenn af erlendu bergi brotnir verða fluttir úr landi með hraði. Þá ætlar de Maiziere einnig að fjölga lögreglumönnum um 15.000 sem og að vopna lögreglu í meiri mæli en áður.

Nú þegar er bannað að hylja andlit sitt á íþróttaleikvöngum en annars eru fáar takmarkanir á klæðaburði Þjóðverja. Búrkur hafa þó verið bannaðar í nágrannalöndunum Frakklandi og Belgíu sem og í nokkrum borgum á Ítalíu.

„Tillögur mínar innihalda eingöngu aðgerðir sem myndu leiða snögglega til aukins öryggis,“ sagði ráðherrann. „Önnur áform munu ríkisstjórnarflokkarnir ræða. Við þurfum að komast að samkomulagi innan ríkisstjórnarinnar.“ Vísaði de Maiziere þar til flokks síns, Kristilegra demókrata, og samstarfsflokksins, Jafnaðarmanna.

Kristilegir demókratar hafa enn fremur lagt til að banna tvöfaldan ríkisborgararétt og að aflétta trúnaði um sjúkragögn. Jafnaðarmannaflokkurinn er hins vegar ósamþykkur þeim áformum og þá er stjórnarandstöðuflokkur Græningja einnig andvígur þeim.

Andstaðan við afléttingu trúnaðar um sjúkragögn byggist á áhyggjum af skerðingu á friðhelgi einkalífsins. Trúnaður á milli sjúklings og læknis er stjórnarskrárvarinn réttur en ef af áformum Kristilegra demókrata yrði myndu læknar þurfa að benda yfirvöldum á sjúklinga sem þá grunar að gætu framið hryðjuverk.

Tveir menn, grunaðir um að hafa átt við geðræn vandamál að stríða, hafa framið voðaverk í sumar. Annar sprengdi sig í loft upp í Ansbach og særði fimmtán en hinn skaut níu til bana í verslunarmiðstöð í München.

Frank Ulrich Montgomery, formaður Læknasambands Þýskalands, sagði í samtali við BBC að trúnaður á milli sjúklings og læknis væri grundvallarréttindi.

Manfred Hauser, yfirmaður leyniþjónustu Bæjaralands, greindi frá því í samtali við BBC að miklar líkur væru á meiri háttar hryðjuverkum í Þýskalandi. Hann sagði starfsfólk sitt rannsaka hundruð tilkynninga um að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) væru að senda liðsmenn sína til Þýskalands, dulbúna sem flóttamenn.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×