Erlent

Grunaður hryðjuverkamaður skotinn til bana í Kanada

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla greip til aðgerða í Kanada í nótt.
Lögregla greip til aðgerða í Kanada í nótt. Vísir/EPA
24 ára gamall Kanadamaður sem grunaður var um að ætla sér að fremja hryðjuverk var skotinn til bana í Kanada í nótt. Var hann grunaður um að ætla að sprengja sjálfan sig í loft upp á almannafæri.

Fyrir um ári síðan var maðurinn handtekinn fyrir að lýsa yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin ISIS á samfélagsmiðlum. Bjó maðurinn í Ontario-héraði, um 225 kílómetrum frá Toronto. Fylgdist lögregla grannt með honum og þegar hún komst á snoðir um að maðurinn ætlaði sér að útbúa sprengju var gripið til aðgerða.

Greina fjölmiðlar í Kanada frá því að þegar lögregla mætti á heimili mannsins hafi hann sprengt litla sprengju og sært sjálfan sig. Hafi hann ætlað sér að sprengja aðra sprengju þegar lögregla nálgaðist hann og því var hann skotinn af lögreglumönnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×