Erlent

Innanríkisráðherra Þýskalands vill banna búrkur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Búrkur eru ekki algengur klæðnaður í Þýskalandi.
Búrkur eru ekki algengur klæðnaður í Þýskalandi. Vísir/Getty
Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, mun styðja tillögur um að banna búrkur.

Búist er við að ráðherrann kynni á morgun tillögur sínar um að flýta brottvísunarferli glæpamanna og að slakað sé á trúnaði milli lækna og sjúklinga, liggi grunur á að sjúklingar hafi uppi áform um að valda öðrum skaða.

Á vef BBC kemur fram að hann muni einnig styðja við tillögur annarra ráðherra úr eigin flokki í næstu viku, þar sem meðal annars verður lögð fram tillaga að banni við búrkum. Búrkan er trúarlegur klæðnaður múslima sem hylur alveg líkama og andlit kvenna, og er ekki algeng sjón í Þýskalandi.

Búist er við því að ráðherrar úr Kristilega Demókrataflokknum leggi fram frekari tillögur í næstu viku. Auk tillögunnar um búrkubannið er einnig búist við tillögum um að koma í veg fyrir að Þjóðverjar geti haft tvöfalt ríkisfang, bæta við fimmtán þúsund lögreglumönnum fyrir árið 2020 og gera öfgasamtökum erfiðara fyrir að fjármagna moskur.

Ekki eru í gildi margar reglur um klæðaburð í Þýskalandi, en nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar gaf út skýrslu árið 2012 þess efnis að bann við búrkum eða niqab andlitsslæðum samræmdist ekki stjórnarskrá landsins. Undantekningar eru þó, en til dæmis er bannað að hylja andlit sitt á knattspyrnuleikvöngum í Þýskalandi. Bann við búrkum eru í gildi í nokkrum öðrum Evrópulöndum, til dæmis Frakklandi og Belgíu.

Læknasamtök í Þýskalandi hafa gagnrýnt tillögur um að slakað sé á trúnaði lækna við sjúklinga, liggi grunur á að sjúklingar hafi uppi áform um að valda öðrum skaða. Brot á læknatrúnaði varðar allt að eins árs fangelsi og sektum í Þýskalandi.

Tillögurnar eru viðbragð við þeim fjölmörgu hryðjuverkaárásum sem hafa verið gerðar í landinu undanfarið.


Tengdar fréttir

Gekk berserksgang með öxi

Minnst fjórir eru sagðir særðir í Þýskalandi og þar af þrír alvarlega eftir árás 17 ára drengs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×