Erlent

Rousseff segir ákæruna tilraun til valdaráns

Atli Ísleifsson skrifar
Dilma Rousseff í þingsal öldungadeildar brasilíska þingsins fyrr í dag.
Dilma Rousseff í þingsal öldungadeildar brasilíska þingsins fyrr í dag. Vísir/AFP
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, gaf í dag skýrslu fyrir öldungadeild þingsins þar sem hún sætir nú ákæru um embættisglöp.

Rousseff varði gjörðir sínar, sagðist ekki hafa gerst brotleg við lög og sagði árásirnar sem beindust gegn sér vera tilraun til valdaráns.

Rousseff var tímabundið vikið úr embætti forseta í maí en hún er sökuð um að hafa hagrætt fjárlögum landsins til að hylma yfir vaxandi tekjuhalla ríkisins.

Þingmenn öldungadeildar þingsins munu greiða atkvæði um það síðar í vikunni hvort Rousseff verði varanlega vikið úr embætti forseta.

Í frétt BBC segir að Rousseff hafi hafið varnarræðu sína á því að minna þingmenn á að hún hafi verið endurkjörin forseti með rúmlega 54 milljón atkvæða. Sagðist hún ávallt hafa virt stjórnarskrá landsins.

Hún mætti í byggingu öldungadeildar þingsins klukkan níu að staðartíma í fylgd vinar síns og læriföður, Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseta landsins. Hópur stuðningsmanna Rousseff hafði safnast saman fyrir utan þinghúsið.

Rousseff hefur áður sagt að ákæran sé liður í áætlun pólitískra andstæðinga sinna að binda endi á þrettán ára stjórnartíð Verkamannaflokksins.

Eftir að hafa gefið skýrslu mun Rousseff svara spurningum þingmanna um ásakanirnar.

Verði hin 68 ára Rousseff varanlega vikið úr embætti mun starfandi forseti, Michel Temer, gegna embættinu út skipunartíma Rousseff, eða fram í desember 2018.

Tveir þriðjuhlutar af öldungadeildarþingmönnum Brasilíu þurfa að greiða atkvæði gegn forsetanum til að henni verði varanlega vikið úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×