Erlent

Fyrsta dauðsfall Tyrkja í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Tyrkneskir hermenn nærri Jarablus.
Tyrkneskir hermenn nærri Jarablus. Vísir/AFP
Fyrsti tyrkneski hermaðurinn lét lífið í Sýrlandi í dag. Hann var um borð í skriðdreka sem eyðilagður var af bandamönnum Kúrda. Kúrdar segjast hafa eyðilagt þrjá skriðdreka Tyrkja en þrír menn eru særðir.

Samkvæmt frétt Reuters hafa Kúrdar ekki tekið beinan þátt í átökunum sem blossuðu upp í dag, en þess í stað berjast Tyrkir við bandamenn Kúrda sem eru Arabar.

Sýrlenskir Kúrdar og vopnaðir hópar Araba stofnuðu regnhlífarsamtökin SDF (Syrian Democratic Forces) til þess að berjast sameiginlega gegn Íslamska ríkinu í norðanverðu Sýrlandi.

Aðgerðir Tyrkja hófust á miðvikudaginn og en innrásin er í raun gerð með sýrlenskum uppreisnarmönnum sem Tyrkir styðja með um 50 skriðdrekum, loftárásum og sérsveitarmönnum.

Markmið aðgerðanna er tvíþætt. Það er að reka vígamenn Íslamska ríkisins frá landamærum Tyrklands og koma í veg fyrir sókn sýrlenskra Kúdra vestur fyrir Efratána.

SDF hafa tekið stóran hluta af norðanverðu Sýrlandi af vígamönnum Íslamska ríkisins með stuðningi Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja.

Sjá einnig: Kúrdar hörfa undan ógnunum Tyrkja.

Yfirvöld í Tyrklandi líta á sýrlenska Kúrda, YPG, sem hryðjuverkasamtök tengd Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi sem einnig er litið á sem hryðjuverkasamtök og hafa barist fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda í austurhluta Tyrklands í um þrjá áratugi. Tyrkir óttast að velgengni Kúrda í Sýrlandi gæti verið olía á eld uppreisnarinnar í Tyrklandi.

Bæði YPG og Tyrkir eru bandamenn Bandaríkjanna í baráttunni gegn ISIS. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í vikunni að Kúrdar yrðu að hörfa austur fyrir Efratána. Annars myndu Bandaríkin hætta stuðningi sínum við Kúrda.

Aðgerðir Tyrkja hafa valdið mikilli spennu á svæðinu og bætt við hina miklu flækju fylkinga sem átökin í Sýrlandi eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×