Lífið

Húðflúr ekki hættulaust

Vera Einarsdóttir skrifar
Algengast er að rauður litur valdi ofnæmi.
Algengast er að rauður litur valdi ofnæmi.
Húðflúr nýtur vaxandi vinsælda bæði hér heima og erlendis og sífellt fleiri flúra stærri hluta líkamans. Svo virðist sem húðflúrlitir séu þó ekki með öllu hættulausir og hafa komið fram tengsl á milli sumra lita við bæði snertiofnæmi og krabbamein. Dr. Bolli Bjarnason mælir með því að fólk hugsi sig vel um áður en það lætur flúra sig.

Kannanir benda til að allt að fjórðungur fólks hafi eitt eða fleiri húðflúr. Samkvæmt könnun í Bandaríkjunum voru 28 prósent á aldrinum 30-39 ára með eitt eða fleiri húðflúr árið 2003 en 38 prósent árið 2012. Þá eru æ fleiri sem láta húðflúra stærri svæði og nota margs konar liti. Svo virðist sem húðflúr sé þó ekki með öllu hættulaust. Sem stendur eru húðflúrlitir til skoðunar hjá Efnastofnun Evrópu (ECHA) sem mun gera áhættumat á þeim hættulegu efnum sem þeir kunna að innihalda. Í Danmörku hefur verið gengið svo langt að banna tiltekna liti auk þess sem gefin hafa verið út tilmæli varðandi öryggi litanna sem notaðir eru.

Dr. Bolli Bjarnason
Getur ekki talist æskilegt

Dr. Bolli Bjarnason, húð- og kynsjúkdómalæknir hjá Útlitslækningu, segir húðflúr almennt ekki geta talist æskilegt fyrir húðina eða líkamann og að ýmsar aukaverkanir geti komið fram. „Sjálf flúrunin getur leitt til aukaverkana eins og örmyndana, sýkinga og húðsjúkdóma á húðflúruðum svæðum hafi fólk sjúkdóma eins og psoriasis fyrir. Húðflúr getur jafnframt leitt til bólgu, eymsla og kláða sem getur verið viðvarandi en þýsk rannsókn leiddi í ljós að slíkur vandi komi upp hjá um sex prósentum þeirra sem láta flúra sig.“

Húðflúrlitir eru nú til skoðunar hjá ECHA en vísbendingar eru um að þeir geti valdið svokölluðu snerti- og ljósofnæmi auk þess sem komið hafa fram möguleg tengsl við ákveðnar tegundir krabbameins. „Það eru engar góðar rannsóknir til um tíðni snertiofnæmis vegna flúrlita. Þó er algengast að upp komi ofnæmi vegna rauða litarins. Þetta átti bæði við hér áður þegar kvikasilfur og súlfíð þess var notað og í dag eftir að farið var að nota lífræna liti,“ segir Bolli og bendir á danska rannsókn sem leiddi í ljós að 62 prósent þeirra sem hafa ofnæmi hafa það fyrir rauðum lit og 20 prósent fyrir svörtum.

Bolli segir ekki gott að greina snerti­ofnæmi fyrir flúrlitum fyrirfram. „Það virðist ekki nóg að prófa með viðkomandi ofnæmisvökum á húð því margir litir virðast ganga í gegnum breytingar í húðinni og mynda óþekkta ofnæmisvaka." Að sögn Bolla lítur út fyrir að blátt, grænt og svart húðflúr leiði síst til ofnæmis.

Bolli segir húðflúrliti innihalda ýmis mögulega krabbameinsvaldandi efni en eitlaæxli, grunnfrumukrabbamein, flöguþekjukrabbamein, keratoacanthoma og sortuæxli eru þekkt eftir liti. Hann segir þau hins vegar ekki algeng. „Hér áður fyrr innihéldu allir litir nema svartur ólífræna liti með þungmálmum. Til að fá þá til að verða skínandi og bjarta en á sama tíma vatnsleysan­lega innihalda þeir nú azo-litarefni sem eru meðal annars notuð í bílalakk og prentliti. Í ljósi geta þessi efni brotnað niður í arómatísk amín sem geta valdið krabbameini og dreifst um líkamann í gegnum eitlakerfið.“

Svört litarefni eru að sögn Bolla oft búin til úr sóti eða kolum. „Þau geta innihaldið eiturefni eða mögulega krabbameinsvaldandi efni svo sem carbon black og polycyclic aromatic hydrocarbons. Sum innihalda jafnframt fen­ola sem geta valdið krabbameini, nýrnaskemmdum, miðtaugakerfisskemmdum eða fósturskaða.“ Bolli segir nýlega rannsókn sem tók yfir 20 ára tímabil þó ekki sýna háar krabbameinstölur. „Sú rannsókn náði hins vegar aðeins til ársins 2011 en síðan hefur notkun húðflúrlita aukist til mikilla muna og eru langtímaáhrif litanna ekki komin í ljós.“

Húðflúrstofur eru starfsleyfis­skyldar og er eftirlit í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga en auk þess gefur Landlæknir út leiðbeiningar um húðgötun og húðflúr sem þeir sem reka húðflúrstofur hér á landi þurfa að fylgja. Í Reykjavík fer heilbrigðisfulltrúi í eftirlit a.m.k. einu sinni á ári og tekur út ýmis aðstöðu- og hreinlætismál, athugar fyrningardagsetningu lita og hver framleiðir þá. Að sögn Rósu Magnúsdóttur, deildarstjóra hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, er ástand á húðflúrstofum yfirleitt gott hvað fyrrnefnda þætti varðar. Aðspurð segir hún ekki hafa verið gerða sérstaka úttekt á efnainnihaldi lita sem notaðir eru á húðflúrstofum en eftirlit með þeim, sem og öðrum efnavörum á markaði, sé í höndum Umhverfisstofnunar. 

Að sögn Ísaks Sigurjóns Bragasonar, sérfræðings í REACH, sem er Evrópureglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir er varða efni, hjá Umhverfisstofnun eru húðflúrlitir ekki til skoðunar sem stendur. „Verði niðurstaða áhættumats ECHA hins vegar sú að þörf sé á að setja sérstakar takmarkanir á innihaldsefni húðflúrlita verður formleg tillaga þess efnis borin upp innan árs. Ef slík tillaga verður samþykkt verður hún hluti af REACH-regluverki Evrópusambandsins og í framhaldinu innleidd hér á landi í gegnum EES-samninginn.“

Bolli segir fólk gera ráð fyrir því að til séu reglugerðir varðandi húðflúrliti en að sú sé ekki endilega raunin. Hann segir Dani hafa gengið einna lengst en þar hafa sumir litir sem fyrr segir verið bannaðir. Þá var átakinu „Think before you ink“ hleypt af stokkunum fyrir nokkrum árum þar sem leitast var við að upplýsa fólk um hugsanlega skaðsemi húðflúrs.

Þarf að hugsa sig vel um

Bolli mælir eindregið með því fólk hugsi sig vel um áður en það fær sér húðflúr, ekki bara með tilliti til útlits heldur líka út af mögulegum hættum.

Aðspurður fær hann til sín töluvert af fólki sem vill láta fjarlægja húðflúr. „Stundum sér það eftir því að hafa húðflúrað sig, vill losna við húðflúr í vinnslu eða húðflúra yfir með nýju. Stundum þarf það að fjarlægja húðflúr vegna vinnu og stundum liggja aðrar persónulegar ástæður að baki. Þá þarf stundum að fjarlægja húðflúr vegna ofnæmis en í þeim tilfellum þarf yfirleitt að beita skurðaðgerð.“

Almennt er þó notuð lasertækni til að fjarlægja húðflúr. „Þó markmiðið sé helst að fjarlægja allan lit er lasermeðferð eingöngu beitt ef fólk sættir sig við að liturinn fari að mestu leyti því ekki er hægt að tryggja að hann fari með öllu. Þá geta myndast ör við gerð húðflúrs sem skapa vissa draugamynd þrátt fyrir árangursríka meðferð.

Bolli notar svokallaða Q-switch­ed Nd:Yag lasertækni með tveimur bylgjulengdum sem reynist vel á alla liti nema grænan. „Ég er að taka í notkun nýjan læknahúðflúrlaser sem gefur tvö laser­skot með mjög stuttu millibili. Hann byggir á nýrri tækni sem gefur betri ­árangur. Las­er­arnir losa mikla ljósorku á skömmum tíma en við það losna litaagnirnar úr frumunum og klofna í minni litaagnir sem átfrumur fjarlægja. Hluti litarins ferðast svo í húðþekjunni út á yfirborðið þar sem hann skilst út.“

Bolli segir ganga best að fjarlægja svartan lit en erfiðast sé að fjarlægja gulan, appelsínugulan og stundum grænan og mælir með því að fólk forðist þá. Hann segir lasermeðferð heldur ekki með öllu hættulausa. „Það er mikilvægt að beita réttum aðferðum og til að tryggja öryggi sjúklinga varðandi rétta greiningu, val á meðferð, framkvæmd og eftirlit hafa þessar og aðrar laserhúðmeðferðir verið takmarkaðar við lækna á Íslandi og í mörgum nágrannalöndum okkar. Í Danmörku er þess aukalega krafist að læknirinn sé húð- og kynsjúkdómalæknir með reynslu af laserlækningum.“

Hvaða húðflúr eru skást og hvað ber að forðast?

Almennt veldur svart húðflúr síður aukaverkunum svo sem ofnæmi og kláða og mögulega síður krabbameini.

Það er auðveldara að fjarlægja húðflúr sé liturinn ekki skær. Erfiðast er að fjarlægja gulan, appelsínugulan og grænan lit. Aukaverkanir eru jafnframt tíðari á útlimum og ber að forðast þá.

Aldrei skal flúra yfir húðbreytingar svo sem fæðingarbletti. Sama á við staði sem ekki er hægt að breiða yfir með klæðnaði, enda getur það haft áhrif á atvinnumöguleika. Þá ber að forðast húðflúr á höfði því það getur truflað segulómanir.

Forðast ber nöfn á ástvinum sem mögulega gætu rofnað tengsl við síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×