Viðskipti innlent

PCC harmar þá stöðu sem komin er upp á Bakka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Byggingar kísilvers PCC eru farnar að rísa á Bakka.
Byggingar kísilvers PCC eru farnar að rísa á Bakka. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Stjórn PCC BakkiSilicon hf. sem stendur að framkvæmdum við kísilver á Bakka víð Húsavík harmar þá stöðu sem komin er upp eftir að framkvæmdir við háspennulínur Landsnets sem tengja áttu iðnaðarsvæðið á Bakka við orkuverin á Þeystareykjum og í Kröflu voru stöðvaðar af kröfu Landverndar.

Í tilkynninu frá fyrirtækinu segir að stöðvun framkvæmda á vegum Landnets geti valdið umtalsverðu fjárhagstjóni fyrir PCC BakkiSilicon verði ekki fundin lausn á þeirri stöðu sem komin er upp sem fyrirtækið segir vera sérkennilega.

Standi PCC BakkiSilicon nú frammi fyrir mikilli óvissu vegna atburðarásar sem fyrirtækið eigi enga aðild að og geti haft áhrif á þær framkvæmdir sem hafi verið í undirbúningi undanfarna fimmtán mánuði.

Tilkynnt var í síðustu viku að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt tvo úrskurði um stöðvun framkvæmda vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4.

Úrskurðirnir séu til bráðabirgða á meðan nefndin fjalli um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.

Í tilkynningu frá PCC BakkiSilicon er haft eftir Hafsteini Viktorssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins að það muni ekki blanda sér í deilu málsaðila.

„Það er að okkar mati mjög sérkennilegt að hægt sé að fá framkvæmdir stöðvaðar sem hlotið hafa öll tilskilin leyfi og haft getur í för með sér það uppnám sem nú er orðið. Ef okkur hefði grunað að svona færi hefðum við væntanlega ekki byrjað verklegar framkvæmdir,“ segir Hafsteinn. 


Tengdar fréttir

Landvernd fer fram á nýtt umhverfismat

Landvernd ítrekar fyrri afstöðu sína um að umhverfismeta beri fleiri valkosti en loftlínu frá Kröflu að Bakka svo draga megi úr umhverfisáhrifum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×