Lífið

Einhverjir hafa áhyggjur af rödd Valdimars: „Ekki missa of mikið af kílóum, þá missirðu þessa rödd“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Valdimar Guðmundsson söngvari mætti í myndver Stöðvar 2 í kvöld ásamt Tómasi Guðbjartssyni hjartaskurðlækni og fór yfir Reykjavíkurmaraþonið sem hann tók þátt í á laugardaginn. Tómas var honum innan handar í undirbúningi fyrir hlaupið ásamt þjálfara Valdimars, Birnu Markús.

„Þetta var bara allt stórsigur og það er æðislegt að finna fyrir allri þessari jákvæðu orku í kringum þetta allt,“ sagði Valdimar.

Hann hefur misst um 30 kíló síðan hann byrjaði að æfa og bætt svo á sig heilmikið af vöðvum. Valdimar segist finna fyrir því hvað allt sé auðveldara þegar maður er kominn í betra form.

„Það er ekki bara að hreyfa sig eða fara í körfubolta. Það er líka bara að elda, fara á tónleika, þetta daglega líf verður bara auðveldara og þetta gerir þetta það virði að fara í gegnum þessa vinnu sem er svo mikilvæg.“

Aðspurður sagðist Valdimar ekki vita hvort að það væri eitthvað til í því að söngvarar misstu röddina ef þeir grenntu sig. Einhverjir virðast þó hafa áhyggjur af því en Valdimar er án efa einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar.

„Ég hef nú hitt menn sem hafa komið upp að mér og sagt „Ekki missa of mikið af kílóum, þá missirðu þessa rödd“ og ég var bara „Takk fyrir hugulsemina,““ sagði söngvarinn og Tómas skaut þá inn í að í hlaupinu hefði ein kona verið að hvetja hann áfram sem hrópaði: „Burtu með kílóin, ekki röddina.“

Spjall Eddu Andrésdóttur við þá Valdimar og Tómas má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.