Erlent

Tala látinna kominn yfir 50 í Tyrklandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mikil sorg ríkir í suður hluta Tyrklands í dag.
Mikil sorg ríkir í suður hluta Tyrklands í dag. Vísir/Getty
Að minnsta kosti fimmtíu eru látnir og hundrað særðir eftir sprengjuárás í brúðkaupsveislu í bænum Gaziantep í suðurhluta Tyrklands í gærkvöld. Yfirvöld í Tyrklandi segja ISIS samtökin á bak við árásina.

Gaziantep er rúmum 60 kílómetrum frá sýrlensku landamærunum en sprengingin varð í fjölmennri brúðkaupsveislu í suðurhluta borgarinnar.

Sjálfsmorðsárás óstaðfest enn

Nokkrir tyrkneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að um sjálfsmorðsárás hafi verið að ræða, en yfirvöld í landinu hafa ekki staðfest það. Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér en Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sendi frá sér yfirlýsingu í nótt þar sem hann segir að líklegt sé vígamenn samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki hafi staðið að baki árásinni. Þá tók hann sérstaklega fram í raun væri enginn munur á samtökunum - og stuðningsmönnum klerksins Fethullah Gulen, sem hann sakar um að hafa staðið að valdaráðstilrauninni sem gerð var í síðasta mánuði. 

ISIS samtökin hafa bækistöðvar nálægt landamærum Sýrlands og Tyrklands en sýrlenskar uppreisnarsveitir hafa sótt hart að þeim undanfarið. Er talið að árásin í nótt hafi verið í hefndarskyni fyrir það.

Sprengjuárásir tíðar

Sprengjuárásir hafa verið tíðar í suðurhluta Tyrklands síðasta árið og hafa ýmist hryðjuverkasamtökin ISIS eða uppreisnarsveitir Kúrda lýst yfir ábyrgð á ódæðunum. Sjálfsvígssprengjumaður banaði til að mynda tveimur lögreglumönnum í borginni í maí síðastliðnum. Þá sprengdu þrír vígamenn ísamtakanna sig í loft upp á alþjóðaflugvellinum í Istanbúl í síðasta mánuði með þeim afleiðingum að 44 létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×