Erlent

Einn helsti raðmorðingi Kína handtekinn eftir 28 ár á flótta

Samúel Karl Ólason skrifar
Gao Chengyong í haldi lögreglu.
Gao Chengyong í haldi lögreglu.
Yfirvöld í Kína hafa handtekið einn alræmdasta raðmorðingja Kína. Hinn 52 ára gamli Gao Chengyong er grunaður um að hafa myrt og nauðgað ellefu konur og börn á 28 árum. Hann réðst á konur sem voru klæddar í rauð föt og skar þær á háls.

Þar að auki afskræmdi hann líkin og þá sérstaklega kynfæri kvennana  og var hann því kallaður „Jack the Ripper“, eða Kobbi kviðrista, af fjölmiðlum í Kína.

Hann er sagður hafa viðurkennt að hafa framið morðin ellefu á árunum 1988 til 2002. Eitt fórnarlamba hans var átta ára gömul stúlka.

Chengyong var handtekinn í matvörubúð í borginni Baiyin í norðurhluta Kína þar sem níu morðanna voru framin. Rannsóknin var endurvakin í mars og var notast við nýjustu tækni í erfðamengisrannsóknum.

Nánar tiltekið var frændi Chengyong handtekinn og var DNA prufa tekin af honum. Sú prufa leiddi lögreglu í áttina að Chengyong.

Þó hafði margt verið reynt á árum áður til þess að hafa hendur í hári morðingjans og bauð lögreglan meðal annars mikið verðlaunafé fyrir upplýsingar um morðingjann árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×