Enski boltinn

Raiola hjólar í Klopp fyrir meðferðina á Balotelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Balotelli og Raiola á röltinu í Mílanó.
Balotelli og Raiola á röltinu í Mílanó. vísir/getty
Ofurumboðsmaðurinn Mino Raiola gagnrýnir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, harðlega og segir hann hafa komið illa fram við Mario Balotelli, einn af skjólstæðingum sínum.

Balotelli samdi við Nice á lokadegi félagskiptagluggans en Liverpool reyndi að losna við ítalska framherjann í allt sumar.

Sjá einnig: Balotelli: Engin áhætta að semja við mig

Balotelli fór ekki með Liverpool-liðinu í æfingaferð til Bandaríkjanna og var látinn æfa einn og með varaliðinu í sumar. Raiola segir að Balotelli hafi fengið ósanngjarna meðferð.

„Hæstráðendur hjá Liverpool viðurkenndu að Klopp hefði haft rangt fyrir sér,“ sagði Raiola í samtali við Gazzetta dello Sport.

„Ég er ekki að reyna að dæma hann sem þjálfara - þótt mér finnist hann ekki vera góður - en hann skildi ekki að Balotelli er fyrst og fremst manneskja.

„Mario hefur verið til fyrirmyndar. Hann kvartaði ekki einu sinni yfir því að þurfa að æfa einn. Þetta var, vægt til orða tekið, rangt hjá Klopp. Hann hagaði sér eins og skíthæll í þessu máli,“ bætti Raiola við.

Umboðsmaðurinn hefur haft nóg að gera og grætt vel í sumar en margir af hans skjólstæðingum færðu sig um set. Má þar m.a. nefna Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×