Viðskipti innlent

Áætlun um afnám hafta úrslitavaldurinn í hærra lánshæfi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ásgeir Jónsson hagfræðingur
Ásgeir Jónsson hagfræðingur
Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir að búast megi við áframhaldandi hækkunum á lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Þær verði væntanlega þegar frekari skref eru stigin í átt að afnámi hafta.

„Ef þetta gengur vel hjá okkur og ef þessi áætlun um afnám hafta, sem hefur verið lögð fram, gengur samkvæmt plani – sem ég held að hún geri – þá held ég að við getum séð aðra hækkun á lánshæfi núna í vetur myndi ég halda, einhvern tímann í kringum áramót,“ segir Ásgeir.

Lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s hækkaði í gær lánshæfiseinkunn Íslands um tvö þrep; úr Baa2 í A3 með stöðugum horfum. Lánshæfiseinkunn Íslands hefur ekki verið eins há frá hruni.

 „Þetta er í raun við að rétta okkur við aftur. Þannig að þetta er að einhverju leyti viðurkenning á þeim árangri sem við höfum náð,“ segir Ásgeir og bendir á að fyrirtækið hafi sýnt nokkra tregðu til að hækka lánshæfið. Það sé meðal annars vegna þess að þeir voru seinir að lækka lánshæfið fyrir bankahrunið árið 2008.

Skýrist af þremur þáttum

Ásgeir segir hækkunina fyrst og fremst skýrast af þremur þáttum en að frumvarp um afnám hafta hafi verið úrslitavaldur í þeim efnum.

„Í fyrsta lagi eru það stöðugleikaframlögin frá slitabúunum. Þar erum við að tala um gríðarlega mikla peninga sem hafa orðið til þess að skuldir ríkissjóðs hefur lækkað og þá hafa tekjur ríkissjóðs vaxið mjög mikið þannig að ríkissjóðir er rekinn með miklum afgangi. Þetta tvennt; lækkun skulda og afgangur af ríkisrekstri er það sem rekur Moody‘s til að hækka lánshæfi. Síðan er það væntanlega í þriðja lagi að það er komin fram áætlun um afnám hafta.“

Hann telur að Moody‘s hafi viljað bíða eftir að íslensk stjórnvöld myndu sýna fram á að það væri raunverulegur vilji til að afnema höftin. Þegar sú áætlun hafi verið lögð fram hafi ákvörðun um hærra lánshæfismat verið tekin.

Góðærið mætt

Aðspurður segir Ásgeir vissulega sama sem merki á milli hærra lánshæfismats og góðæris. „Já. Lánshæfiseinkunn Íslands er að einhverju leyti mat á hversu góður skuldunautur ríkissjóður Íslands er, þannig að það má vissulega setja sama sem merki þarna á milli,“ segir hann.

Þá segir hann þessar hækkanir fyrst og fremst jákvæðar. „Almennt séð leiðir hækkun á lánshæfi til betri kjara fyrir ríkið. Þannig að þetta ætti að leiða til þess að eiginlega allir fá betri kjör og þetta er mikilvægt fyrir til dæmis bankana, Landsvirkjun og Orkuveituna, svo eitthvað sé nefnt. Það er gríðarlega mikill ábati af hærra lánshæfi,“ segir Ásgeir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×