Fótbolti

Messi sem hætti við að hætta og skoraði í endurkomunni: „Ég blekkti engan“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi með ljósu lokkana í leiknum í nótt.
Lionel Messi með ljósu lokkana í leiknum í nótt. vísir/getty
Lionel Messi segir engan hafa blekkt með ákvörðun sinni að hætta í landsliðinu en sú ákvörðun stóð aðeins í nokkrar vikur. Hann ákvað að halda áfram að spila með argentínska landsliðinu og spilaði sinn fyrsta leik eftir „endurkomuna“ í nótt.

Argentína vann þá Úrúgvæ, 1-0, í toppslag undankeppni HM 2018 í Suður-Ameríku en Messi reyndist hetja heimamanna er hann skoraði eina markið undir lok fyrri hálfleiks.

Messi var niðurbrotinn maður eftir tap gegn Síle annað árið í röð í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar en hann er nú búinn að tapa þremur stórum úrslitaleikjum með Argentínu (HM 2015, Copa America 2015 og 2016) á þremur árum.

Messi ítrekaði eftir sigurinn í gærkvöldi að hann hefði ekki verið að fíflast neitt með ákvörðun sína að hætta. Það var landsliðsþjálfarinn Edgardo Bauza sem fékk hann af þeirri ákvörðun en hann flaug til Evrópu til að hitta leikmanninn í sumar.

„Ég er mjög þakklátur fyrir að vera kominn aftur í landsliðið. Ég blekkti samt engan þegar ég sagðist vera hættur. Mér leið þannig,“ sagði Messi við argentínska ríkissjónvarpið eftir sigurinn í nótt.

„Við vorum rosalega svekktir eftir það sem gerðist í sumar en síðar leið mér betur. Ég ræddi við þjálfarann sem hjálpaði mér í gegnum þetta,“ sagði Lionel Messi.

Argentína er á toppi riðilsins með fjórtán stig eftir sjö leiki en það stökk upp fyrir Úrúgvæ með sigrinum. Messi er reyndar tæpur vegna meiðsla fyrir næsta leik Argentínu sem er á móti Venúsúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×