Enski boltinn

Carragher telur að Liverpool nái Meistaradeildarsæti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool snýr aftur í Meistaradeildina næsta vetur að mati Jamie Carragher.
Liverpool snýr aftur í Meistaradeildina næsta vetur að mati Jamie Carragher. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður Liverpool og núverandi sparkspekingur Sky Sports, telur að sitt gamla lið nái Meistaradeildarsæti á þessari leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool endaði í áttunda sæti á síðustu leiktíð, sex stigum á eftir Manchester City sem sem varð í fjórða sæti en heilu 21 stigi á eftir Englandsmeisturum Leicester.

Carragher telur að mikill viðsnúningur verði á deildinni í vetur. Liverpool verður eitt af fjórum efstu liðunum en meistararnir í Leicester sem pökkuðu deildinni saman á síðustu leiktíð ná ekki Meistaradeildarsæti.

„Þetta fer aftur í gamla horfið. Ég veit að stuðningsmenn Leicester vilja ekki heyra þetta en stóru strákarnir snúa aftur,“ segir Carragher í viðtali við Goal.com.

„Ég tel að fjögur efstu liðin verði Manchester United, Manchester City, Chelsea og Liverpool.“

Chelsea náði ekki heldur Meistaradeildarsæti á síðustu leiktíð og ekki einu sinni sæti í Evrópudeildinni frekar en Liverpool. Chelsea átti slökustu titilvörn sögunnar og endaði í tíunda sæti eftir að verða meistari í fyrra.

„Ég tel að sú staðreynd að Chelsea er ekki í Evrópukeppni líkt og Liverpool sé gríðarlegt forskot fyrir bæði lið,“ segir Jamie Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×