Innlent

Kannabisverksmiðjan í Kópavogi: Feðgarnir lausir úr haldi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. vísir/valli
Feðgarnir þrír sem handteknir voru í tengslum við umfangsmikla kannabisræktun í Kópavogi eru lausir úr haldi. Þeir voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald sunnudaginn 11. september, en var sleppt úr haldi á föstudag.

Runólfur Þórhallsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki hafi þótt tilefni til þess að óska eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Búið sé að tryggja öll þau gögn sem þurfi vegna rannsóknarinnar. Málið sé hins vegar ekki upplýst og þá vill hann ekki gefa upp hver afstaða mannanna þriggja til málsins sé.

Kannabisræktunin sem um ræðir en ein sú stærsta sinnar tegundar hér á landi. Hún var í iðnaðarhúsnæði við Smiðjuveg en þar fundust á sjötta hundrað kannabisplöntur á lokastigi ræktunar og mikið magn af tilbúnu maríjúana og niðurklipptum laufum. Að sögn lögreglu var ræktunin mjög fullkomin og búnaðurinn eftir því, en þa tók hóp lögreglumanna margar klukkustundir að taka ræktunina niður.

Alls voru sex handteknir í tengslum við málið, þar af hjón á sextugsaldri og tveir synir mannsins á fertugsaldri. Feðgarnir þrír voru sem fyrr segir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Runólfur segir að hald hafi verið lagt á umtalsverða fjármuni sem taldir eru tilkomnir vegna fíkniefnasölu, en hann vill ekki gefa upp upphæð fjárhæðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×