Erlent

Sífellt fleiri sem þurfa aðstoð við að komast út af heimilum sínum vegna offitu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn í Wales koma einstaklingi úr húsi sínu.
Slökkviliðsmenn í Wales koma einstaklingi úr húsi sínu. Mynd/The South Wales Fire Service
Breskir slökkviliðsmenn aðstoðuðu á síðasta ári rúmlega níu hundruð manns sem ekki komust út af heimilum sínum sökum offitu. Slíkum verkefnum hefur fjölgað um ríflega þriðjung í landinu á undanförnum þremur árum. Heilbrigðisyfirvöld hafa lýst áhyggjum af vandamálinu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að slökkviliðsmenn hafi þurft að fjarlægja rúður, handrið og jafnvel veggi til þess að koma fólkinu út og undir læknishendur. Slökkvilið hóf að skrá slíkar tilkynningar niður árið 2012 þegar þær  voru 709 talsins. Verkefnin eru orðin það mörg að festa hefur þurft kaup á sérstökum tækjabúnaði til þess að geta sinnt þeim með fullnægjandi hætti.

Fangar í eigin líkama

Dr. David Kerrigan, skurðlæknir sem sérhæfir sig í offitu, segir að oft sé um félagsfælið fólk að ræða sem forðist eftir fremsta megni að fara út á meðal fólks. Það nýti sér internetið til þess að versla helstu nauðsynjavörur frekar heldur en að gera það sjálft.

„Fólk verður að föngum. Ekki einungis í eigin líkama heldur einnig á heimilum sínum. Því þyngra sem það verður því ólíklegra er að það fari út. Það notar til dæmis internetið mikið þannig að það þarf ekki einu sinni að fara út að versla og flest þeirra samskipti fara fram í gegnum samfélagsmiðla. Þannig festist það í þessum aðstæðum,“ segir Kerrigan.

Hann segir jafnframt að offitutilfellum hafi ekki fjölgað svo um munar, en að hins vegar séu þau orðin verri en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×