Erlent

Bandarískir sérsveitarmenn kallaðir krossfarar og heiðingjar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarískir sérsveitarmenn hafa verið að störfum í Sýrlandi.
Bandarískir sérsveitarmenn hafa verið að störfum í Sýrlandi. Vísir/Getty
Myndbönd sem birt hafa verið á samfélagsmiðlum sýna bandaríska sérsveitarmenn í Sýrlandi flýja undan formælingum uppreisnarmanna sem studdir hafa verið af bandarískum yfirvöldum. Eru sérsveitarmennirnir kallaðir krossfarar og heiðingjar sem „eigi sér engan stað í Sýrlandi.“

Sérsveitarmennirnir, sem sagðir eru starfa með tyrkneska hernum, í sókninni gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS, komu inn í sýrlenska bæinn al-Rai, skammt frá landamærum Sýrlands og Tyrklands. Bærinn var nýlega undir yfirráðum ISIS en eftir harða sókn Syrian Free Army (FSA), regnhlífasamtök uppreisnarmanna, og tyrkneska herinn tókst að reka liðsmenn ISIS úr bænum.

FSA hefur notið stuðnings bandarískra yfirvalda en liðsmenn þess létu bandarísku sérsveitarmennina heyra það og ráku þá úr bænum.

„Kristnir og Bandaríkjamenn eiga ekki heima hér,“ kallar einn að sérsveitarmönnunum. „Þið viljið fara í krossför til þess að hernema Sýrland.“

Charles Lister, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, segir í samtali við Telegraph að þetta hafi allt saman hafist þegar uppreisnarmennirnir sökuðu Bandaríkjamenn um að hafa starfað með Kúrdum en FSA hafa barist gegn Kúrdum.

Málið þykir varpa ljósi á gríðarlega flókin tengsl þeirra hópa sem berjast í Sýrlandi. Ljóst er að margir hópar sem njóta stuðnings Bandaríkjanna og annarra bandamanna berjast innbyrðis auk þess sem að talið er að ákveðnir hópar sem njóti slíks stuðnings séu þó ekki hrifnir af veru bandarísks herafla í Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Tortryggnir á vopnahléið

Vikulangt vopnahlé tók gildi í gærkvöld í Sýrlandi. Uppreisnarmenn óttast að Assad forseti noti tækifærið til árása. Hjálparsamtök vilja nýta tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×