Fótbolti

Freyr: Hættulegasti leikurinn í riðlinum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari hefur lagt mikið í undirbúninginn fyrir leik Íslands gegn Slóveníu í kvöld en það er hans starf að halda leikmönnum liðsins á jörðinni.

Íslenska liðið þarf aðeins eitt stig úr leik kvöldsins til þess að tryggja sig inn á EM. Í ljósi þess að Ísland vann viðureign liðanna ytra 6-0 þá líta margir á þennan leik sem formsatriði.

„Þetta er mjög snúið og ég hef sagt við liðið að þetta sé sennilega hættulegasti leikurinn sem við höfum spilaði í þessum riðli af því að við erum að fara að mæta þrusugóðu liði. Lokatölurnar í leiknum í Slóveníu gefa til kynna að við séum með betra lið og þetta eigi að vera göngutúr í garðinum en þetta er ekki þannig,“ segir Freyr.

„Ég hef verið að sýna liðinu staðreyndir. Hvað þær hafa gert. Tölfræði úr leikjum þeirra sem sýnir að við erum að fara að mæta alvöru liði. Er við sýndum aftur klippur úr leiknum í Slóveníu þá rifjaðist upp fyrir leikmönnum hvað við vorum að gera. Ég vænti þess að allir leikmenn verði með sitt á hreinu í þessu verkefni.“

Þó svo þjálfarinn minni á að það þurfi að hafa fyrir þessu í kvöld þá fer hann ekkert í grafgötur með að íslenska liðið á að vinna þennan leik.

„Við setjum þá kröfu á okkur að vinna leikinn. Varðandi spennustigið þá er ég að sækjast aðeins eftir því líka. Mögulega mun það valda okkur vandræðum í þessum leik en ef við komumst yfir það þá verð ég mjög ánægður,“ segir Freyr en ekki er búið að skipuleggja nein fagnaðarlæti ef liðið kemst á EM í kvöld.

„Ég hef ekki einu sinni rætt það. Ég veit að það er matur eftir leik og svo æfing á Leiknisvelli daginn eftir. Það er það eina sem ég veit. Ef við tryggjum þetta þá fögnum við því en þó aðallega út á vellinum með fólkinu. Það skiptir mestu máli því við eigum leik aftur á þriðjudaginn. Þá náum við vonandi okkar stærsta markmiði sem er að vinna riðilinn. Eftir það verður í lagi að gera eitthvað meira skemmtilegt.“

Sjá má viðtalið við Frey í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir

Margrét Lára: Við höfum spilað frábærlega

Margrét Lára Viðarsdóttir segir að landsliðið geri þá kröfu til sjálfs sín að tryggja EM-sætið í kvöld er Slóvenía­ kemur í heimsókn. Komist liðið á EM gæti það mót verið hennar síðustu landsleikir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×