Bíó og sjónvarp

Um skrifstofulífið og gagnslausa prentara

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Eitt frægasta atriði myndarinnar sem marga hefur ábyggilega dreymt um að leika eftir.
Eitt frægasta atriði myndarinnar sem marga hefur ábyggilega dreymt um að leika eftir.
Hin klassíska költmynd Office Space verður sýnd í Bíó Paradís á morgun og því vert að rifja hana aðeins upp hér á síðum Fréttablaðsins. Myndin hefur verið ákaflega vinsæl hjá skrifstofufólki þó að allir ættu að geta tengt við hana á einn eða annan hátt.

Myndin kom út árið 1999 og segir frá Peter Gibbons en hann vinnur sem forritari hjá fyrirtækinu Initech. Hann er ákaflega óánægður í starfi enda er hann bara eitt tannhjól í klukkuverki kapítalismans þar sem persónan er bara númer og svo framvegis.

Þetta er undirstrikað rækilega með yfirmanninum Bill Lumbergh sem hefur með vinsældum Office Space orðið ákveðin táknmynd fyrir ömurlegan yfirmann og líklega ófáir skrifstofustarfsmenn um allan heim sem hafa hermt eftir raddbeitingu hans í frasanum hans „yeah, that’ll be greeeaaaat“.­

Yfirmaðurinn leiðinlegi Bill Lumbergh.
Í framhaldi af því að ráðgjafarnir Bob og Bob mæta á svæðið til að skera niður hjá Initech fer Peter í dáleiðslumeðferð – en dávaldurinn deyr áður en hann nær að vekja Peter af leiðslunni.

Þetta veldur því að Peter verður ákaflega afslappaður – hann nær að losa af sér fjötra skrifstofulífsins og í frægu „montage“­-atriði sjáum við Peter brjóta nánast allar reglur skrifstofunnar þar sem hann meðal annars verkar fisk á skrifborðinu sínu, leggur í stæðið hans Lumberghs og tekur niður skrifstofuskilrúmið sitt til að sitja fyrir framan glugga. Einn hápunktur myndarinnar er síðan þegar Peter og samstarfsmenn hans, Samir Nagheenanajar og Michael Bolton, rústa prentara sem hafði verið að ergja þá lengi.

Myndin er skrifuð og leikstýrt af Mike Judge en honum er lífið á skrifstofunni afar hugleikið. Hann vann sjálfur á skrifstofu svipaðri og Office Space sýnir, auk þess að hafa unnið sem forritari í sprotafyrirtæki í Silicon Valley. Hann fór að taka eftir því að skrifstofulífið í Bandaríkjunum virtist allt eins alls staðar – raðir af skilrúmum (e. cublicles), allt húsnæði hannað eftir sömu teikningunni nánast og keðjuveitingastaðir í næsta nágrenni.

Síðar nýtti Mike Judge reynslu sína af sprotafyrirtækjum í þættina Silicon Valley – þar eru mörg svipuð þemu í gangi og í Office Space og greinilegt að reynsla hans af skrifstofum og þeim kúltúr sem þar vill þrífst hefur brennt hann mikið.

Og reynsla Mike Judge snerti greinilega einhverjar taugar því að þrátt fyrir að Office Space hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel þegar hún kom fyrst út í bíó – halaði inn tæpar 13 milljónir dollara á móti þeim 10 milljónum sem hún kostaði í framleiðslu – þá var henni mjög vel tekið af gagnrýnendum og hún seldist vel bæði á VHS og DVD. 

Myndin varð sérstaklega vinsæl meðal starfsmanna í upplýsingatæknideildum og greinilegt að margir eiga sér sinn Bill Lumbergh og hafa háleita drauma um að feta í fótspor Peters – mæta með nýveiddan fisk á skrifstofuna, sofa út og leggja bölvaðan prentarann í rúst (jafnvel enn þann dag í dag – prentarar virðast ekki hafa batnað neitt síðan um miðjan tíunda áratuginn). Költmyndir eru enda myndir sem hafa einhvern neista í sér sem gerir þær þess virði að horfa á aftur og aftur – því ekki að kíkja aftur á Office Space á næstunni.

Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.