GoPro hefur átt í vandræðum í ár og hefur ekki tekist að skila hagnaði. Tekjur fyrirtækisins hafa minnkað um allt að helming á milli ársfjórðunga.
Nick Woodman, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hefur lofað hluthöfum að fyrirtækið muni skila hagnaði á árinu og segir að það markmið standi enn. Hann segir nýju vörur þeirra vera þær bestu sem fyrirtækið hafi framleitt.
Það fer lítið fyrir Karma
Dróninn Karma er ekki fyrirferðarmikill og er hægt að brjóta hann saman og koma honum fyrir í þar til gerðum bakpoka. Þá er dróninn mjög léttur og hámarkshraði hans er um 55 kílómetrar á klukkustund. Hægt er að fljúga honum í um kílómeters fjarlægð og dugar rafhlaða hans í um tuttugu mínútur.
Karma fylgir sérstök fjarstýring með skjá svo snjallsími er ekki nauðsynlegur til að fljúga honum eins og með svo marga aðra dróna.
Það sem dróninn hefur ekki er búnaður sem kemur í veg fyrir að hann fljúgi á manneskjur eða veggi.
Blaðamaður Verge fer yfir helstu kosti og ókosti Karma.