Innlent

Tvö þúsund börn á lista yfir grunaða öfgamenn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Alls eru 1.954 börn á listanum.
Alls eru 1.954 börn á listanum. vísir/epa
Tæplega tvö þúsund börn eru á sérstökum lista franskra yfirvalda yfir grunaða öfga- og hryðjuverkamenn í landinu. Yngsta barnið á listanum er ellefu ára, en alls eru rúmlega fimmtán þúsund manns á listanum.

Frönsk yfirvöld komu upp gagnagrunni yfir meinta öfgamenn í mars í fyrra í kjölfar árásarinnar á Charlie Hebdo tveimur mánuðum áður. Yfirvöld telja mikla ógn stafa af að minnsta kosti fjögur þúsund manns á listanum.

Bróðurpartur fólks á listanum eru karlmenn á aldrinum 18 til 25 ára sem eiga við einhver geðræn vandamál að stríða, að því er segir í breska blaðinu Sunday express.

Forsetaframbjóðandinn Nicolas Sarkozy greindi frá því á kosningafundi sínum í síðustu viku að yfirvöld hefðu þegar borið kennsl á sautján ungmenni sem hafi ætlað að berjast í Sýrlandi. Þá sagði utanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, að frá því í janúar hafi alls 355 verið handteknir vegna gruns um tengsl við hryðjuverkasamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×