Innlent

Engin þjóð eins langt komin í meðferð á lifrarbólgu C

Ásgeir Erlendsson skrifar
Engin þjóð er eins langt á veg komin að meðhöndla sjúklinga með lifrarbólgu C og Ísland en meðferð á 360 manns sem hófst fyrr á þessu ári gengur vel.

Sérfræðingur í lifrarlækningum talar um byltingu fyrir þennan sjúklingahóp og vonast er til að sjúkdómnum verði útrýmt hér á landi á næstu árum.

Í febrúar tóku heilbrigðisyfirvöld, Landspítali og sjúkrahúsið Vogur höndum saman í samvinnu við lyfjafyrirtækið Gilead og hófu verkefni sem miðar að því að veita sjúklingum með lifrarbólgu C meðferð.

Talið er að 800-1000 manns séu smitaðir hér á landi en við upphaf átaksins hófu 360 sjúklingar meðferð.

Sigurður Ólafsson, sérfræðingur í meltingar- og lifrarlækningum.
Sigurður Ólafsson, sérfræðingur í meltingar- og lifrarlækningum, leiðir rannsóknina og hann segir árangur undanfarinna átta mánaða vera góðan og vonast eftir að hægt verði að útrýma sjúkdómnum á næstu árum.

„Það er engin þjóð jafn langt á veg komin með að meðhöndla sinn sjúklingahóp eins og við hér á Íslandi. Það hefur gengið vel og engin meiriháttar vandamál komið upp á. Við höfum ekki nákvæmar tölur um hversu margir hafi læknast en það sem við höfum séð það sem af er, er í samræmi við væntingar.“ Segir Sigurður.

Sigurður vonast til að allir þeir sem smitaðir eru af lifrarbólgu C taki þátt og gangist undir meðferð við sjúkdómnum.

„Skilaboðin núna eru þau til allra þeirra sem eru með lifrarbólgu C og eru ekki komnir á lyfjameðferð, að leita til okkar. Það er mjög auðvelt að nálgast okkur. Við erum á Facebook og það er hægt að hafa samband við okkur í gjaldfrjálsan síma 800-1111," segir Sigurður.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×