Erlent

Ætla að styrkja frið með Nóbel

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, tekur í höndina á Timoleon Jiminez, leiðtoga FARC-hreyfingarinnar, við undirritun friðarsamkomulagsins 26. september.
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, tekur í höndina á Timoleon Jiminez, leiðtoga FARC-hreyfingarinnar, við undirritun friðarsamkomulagsins 26. september. vísir/afp
Norska Nóbelsnefndin segist vonast til þess að úthlutun friðarverðlauna þetta árið verði til þess að friður verði að veruleika í Kólumbíu.

Verðlaunin fær Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, sem fyrir stuttu undirritaði friðarsamkomulag við leiðtoga skæruliðahreyfingarinnar FARC, að loknum fjögurra ára erfiðum friðarviðræðum.

Samkomulagið var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu helgi, en Santos hefur sagt að hann ætli að halda áfram að vinna að friði til síðasta dags í embættinu.

„Nefndin vonar að friðarverðlaunin muni gefa honum styrk til að ná árangri í þessu erfiða starfi,“ segir í tilkynningu norsku Nóbelsnefndarinnar. „Enn fremur er það von nefndarinnar að á komandi árum muni íbúar Kólumbíu uppskera ávextina af því friðar- og sáttaferli sem nú stendur yfir.”

Nefndin segir þó ekkert öruggt um að friðarsamkomulaginu verði bjargað, úr því sem komið er:

„Það er raunveruleg hætta á því að friðarferlið stöðvist og borgarastríð blossi upp á ný,“ sagði formaður nefndarinnar, þegar skýrt var frá vali ársins.

Sjálfur segist Santos vera óendanlega þakklátur fyrir þennan heiður. Hann tileinkaði verðlaunin fórnarlömbum ófriðarins.

Styrjöld stjórnarhersins og FARC stóð yfir í meira en hálfa öld og kostaði meira en 200 þúsund manns lífið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×