Innlent

Ræða hvers vegna samningurinn var felldur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. vísir/stefán
„Við erum að fara yfir hvernig þetta leit út þegar við kusum um síðasta samning. Hvað var verið að fella. hvað var gott, hvað er vont og hvað má bæta. Við erum að taka púlsinn á fólkinu okkar,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.

Ólafur ferðast nú um landið og fundar með kennurum en nýr kjarasamningur grunnskólakennara var felldur í september þegar 57 prósent atkvæða voru greidd gegn honum.

Þau atriði sem helst hafa borið á góma er varða ástæður þess að samningurinn var felldur eru vinnutími og laun. „Þetta eru raunverulega þessi klassísku atriði sem snúa að vinnutíma, launum og framkvæmd á síðasta samningi. Þetta snýst um traust og þetta eru þeir hlutir sem við erum mest að ræða,“ segir Ólafur.

Samhliða ferðalögum og fundum segir hann Félag grunnskólakennara funda með sveitarfélögum til að skoða stöðuna og hvernig verði hægt að ná saman. „Við erum að tala um möguleikana, hvaða þætti við viljum tala um. Við erum að skoða hvaða möguleikar eru á borðinu og þegar við erum sammála um þá geta menn farið að ræða hvaða leiðir á að fara,“ segir Ólafur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×